Fræðslu- og frístundaþjónusta Hafnarfjarðar, ásamt Bókasafni Hafnarfjarðar og heilsugæslunni í Hafnarfirði, stendur um þessar mundir fyrir fræðslu fyrir foreldra ungra barna með það að markmiði að auka vitund foreldra um mikilvægi málþroskans. Haldnir eru tíu fræðslufundir í Hafnarfirði um málörvun ungra barna og verða þeir flestir haldnir í grunnskólum bæjarins. Foreldrar/forráðamenn barna á aldrinum 6-24 mánaða eru hvattir til að mæta á fundi í sínu skólahverfi, en frjálst er að mæta á fund í öðru skólahverfi.

Að undanförnu hefur átt sér stað mikil umræða um að málþroska og orðaforða íslenskra barna sé að hraka. Það hefur síðar áhrif á lesskilning barna og námsforsendur. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að með örvun málþroska er hægt að styrkja undirstöðuþætti læsis og styðja við góðan námsárangur. Þar geta foreldrar gegnt mikilvægu hlutverki og fundunum er einmitt ætlað að fræða foreldra og efla þá í foreldrahlutverkinu.

Á dagskrá fundanna tíu verða fræðsluerindi um málþroska og málörvun, stutt kynning á Bókasafni Hafnarfjarðar og þjónustu þess við börn og einnig afhending bókagjafar og bókasafnsskírteinis fyrir börn. Fundaröðin hófst 25. september sl. og verður til og með 1. nóvember. Verkefnið er hluti af  læsisstefnu  Hafnarfjarðar, LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR, og er unnið í nánu samstarfi við Bókasafn Hafnarfjarðar og heilsugæslustöðvarnar í Hafnarfirði.

Á forsíðumynd f.v. Berglind Gréta Kristjánsdóttir, deildarstjóri viðburða og kynningarmála, Ingibjörg Ósk Sigurjónsdóttir, deildarstjóri barna og unglingadeildar, Bjartey Sigurðardóttir, talmeinafræðingur og verkefnisstjóri Lestur er lífsins leikur, Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur, Björk  Alfreðsdóttir, sérkennslufulltrúi leikskóla og Óskar Guðjónsson, forstöðumaður Bókasafns Hafnarfjarðar.