Áætlað er að 70 þúsund manns muni bætast við íbúa þeirra sjö sveitarfélaga sem eru aðilar í svæðisskipulagsnefnd SSH, á næstu 28 árum. Það eru samanlagt íbúar í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ. Síðan 1985 fjölgaði akreinum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur um 6 en umferðin fjórfaldaðist. Hafnarfjarðarbær stóð fyrir 1. kynningarfundi um Borgarlínu í Hafnarborg í liðinni viku fyrir fullum sal og var fundurinn einnig í beinni útsendingu. Fjarðarpósturinn var á staðnum og punktaði niður áherslur þeirra sem til máls tóku.

Ó. Ingi Tómasson, bæjarfulltrúi hjá Hafnarfjarðarbæ, setti fundinn og sagði fyrst frá svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 2015. „Án markvissra aðgerða um aukna notkun á almenningssamgöngum mun umferð bíla aukast sem samsvarar íbúafjölgun. Borgarlína er hluti af svæðisskipulagi um þéttingu byggðar.“ Svo kynnti Ingi til leiks fundarstjórann Þormóð Sveinsson, skipulagsfulltrúa bæjarins.

Vexti fylgja fjárfestingar

Fyrstur tók til máls Hrafnkell Proppé, svæðisskipulagsstjóri Samtaka sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu (SSH). Hann sagði m.a. að það þurfi að ýta undir og bæta valmöguleika íbúa á þessu svæði. Vextinum ætti að beina meira inn á við (þétting) þar sem þjónusta almenningssamgangna er eða verður. Einnig að styrkja ætti almenningssamgöngur og vistvæna ferðamáta þannig að íbúar hafi raunhæft val milli ferðamáta. Ekki að fjölgun íbúa leiði til aukinnar bílaumferðar eins og undanfarna áratugi. Hrafnkell fór yfir helstu forsendur fyrir eflingu almenningssamgangna: „Þetta svæði er að glíma við vöxt og vexti fylgja auknar fjárfestingar í samgöngum. Til að vel lukkist þarf að samþætta skipulag samgangna og byggðamynsturs. Vöxtur hefur orðið meiri en spár gerðu ráð fyrir en slíkt hefur átt það til að jafna sig þegar litið er til lengri tíma. Það er samhengi á milli byggðamynsturs og samgangna. Umræða um sjálfkeyrandi tækni er ekki val um eitthvað á kostnað annars. Þetta getur stutt við hvert annað og þörf á bílastæðum yrðu minni en áður. Þetta er langtíma verkefni, ekki skyndilausn og margir áfangar fram undan.“

Snýst um sérrými og möguleika

Ólöf Kristjánsdóttir, samgönguverkfræðingur og fagstjóri hja samgöngu- og verkfræðistjórnunarfyrirtækinu Mannvit. Hún tók fram að verkefnið sé aðeins frumskoðun og mátun á rými fyrir íbúa Hafnarfjarðar að átta sig á hvaða möguleikar hafa verið skoðaðir fyrir sérrými í samgöngum um bæinn. „Þetta snýst ekki bara um Borgarlínuna heldur sérrými og forgang almenningssamgangna. Kortleggja þau vandamál sem blasa við. […] Forsenda fyrir Borgarlínu er að tryggja sterkan farþegagrunn.“ Einnig fór Ólöf yfir ferðatíma, uppbyggingarmöguleika, stoppistöðvar, göturými, þrengsli, þétta reiti og lagði áherslu á mikilvægi góða samstarfs. Ef leiðar nr. 1 nyti ekki við þá væri umferðin á Hafnarfjarðarvegi mun þéttari. Því sé full ástæða til að hlúa að leið 1 og legu hennar um Reykjavíkurveg.

Fyrirspurnir úr sal:

Hafa þessar hugmyndir verið unnar í sátt meðal stjórnmálaafla Hafnarfjarðar á þessu kjörtímabili?

Ingi: „Full samstaða innan allra flokka um þetta mál í skipulags- og byggingaráði og í bæjarstjórn. Bæði hvað varðar svæðisskipulag og þá vinnu sem hefur átt sér stað um Borgarlínu.“

Hvernig mun kostnaðurinn koma niður á fjölskyldum með marga aðila í einkabíl vs samöngukerfi?

Hrafnkell: „Við höfum ekki gert ráð fyrir breytingum á farþegagjöldum í okkar vinnu. Ekki gert ráð fyrir öðru gjaldi í strætó en borgarlínu. Verður sama kerfið.“

Gestur í sal lagði til að málefni Borgarlínunnar hljóti íbúakosningu því margir ættu hagsmuna að gæta, t.d. varðandi bílastæði við Reykjavíkurveg. Fundarstjóri kom því á framfæri.

Af hverju er strætisvagnakerfið ekki lagað strax svo að það sé nýtt betur?

Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar og stjórnarmaður hjá Strætó Bs.: „Umfangsmiklar tölur eru til um farþegafjölda strætó og vagnarnir eru langt frá því að vera tómir. Bendi á breytingar í strætisvagnakerfi Hafnarfjarðar sem tóku gildi um sl. áramót. Þær eiga að vera til bóta fyrir bæjarbúa. Sífelld vinna við þetta. Stærsta breytingin sem þyrfti að gerast yrði að strætó kæmist auðveldar leiðar sinnar og vinnslan í tengingu við Borgarlínuna styður við það.“

 

 

 

 

 

Halldór Árni Sveinsson, útsendingarstjóri. 

Myndir: OBÞ.