Menningarfélagið mooz sýnir Allt sem er fallegt í lífinu í Gaflaraleikhúsinu næstkomandi laugardag. Verkið var frumsýnt í lok ágúst í félagsheimili Seltjarnarness við góðar undirtektir. Tvær sýningar verða, klukkan 15 og 20 og boðið verður upp á umræður eftir hana.

Sýningin rannsakar samskipti kynjanna með hugmyndum félagsfræðingsins R.W. Connells um ríkjandi karlmennskugerðir til hliðsjónar. Hópurinn vann sýninguna í samsköpun undir listrænni stjórn Stefáns Ingvars Vigfússonar, en BA ritgerð hans af sviðshöfundabraut var innblástur hennar: „Í ritgerðinni skoða ég leikritin SOL eftir Sóma þjóðar og Fjalla-Eyvind eftir Jóhann Sigurjónsson. Á yfirborðinu eiga þessa verk sáralítið sameiginlegt, annað en gefa karlmönnum mikið pláss. Það er öld milli þess sem þau voru frumsýnd, en í sjálfu sér breytast hugmyndir okkar um karlmennsku lítið á þessu tímabili.“

Sýningin stendur á mörkum myndlistar, tónleika og textaleikhúss, en mooz er rannsóknarvettvangur þeirra Stefáns Ingvars og Friðriks Margrétar-Guðmundssonar og leita þeir þvert á miðla í leit sinni að fegurð og sannleika. Auk þeirra standa að sýningunni þau Brynhildur Karlsdóttir, tónlistarkona og sviðshöfundanemi, og Tómas Gauti Jóhannsson, leiklistarnemi. Öll fjögur eru þau höfundar sýningar, en Brynhildur og Tómas leika í henni.

 

Myndir aðsendar.