„Þorgerður mín, það er tómt mál að ræða einhver göng og stokka hér á svæðinu. Það er útópía“ sagði
ágætur reynslubolti við mig þegar ég var að stíga mín fyrstu skref á Alþingi fyrir tæpum 20 árum síðan.
Ég hafði í einfeldni minni viðrað á fundi að Suðvesturhornið yrði líka að vera hluti af jarðgangaáætlun.

Gott og vel.

Eitt brýnasta hagsmunamálið á landsbyggðinni eru betri samgöngur og fleiri jarðgöng. Ég tek undir það.
Þau eru lykilatriði fyrir betri lífsgæði íbúa. Á suðvesturhorninu eru aðstæður aðrar sem kalla á annars
konar samgöngubætur. Sem líka erum umfangsmiklar og kostnaðarsamar. Aðstæður og þarfir eru bara
með öðrum hætti. Því er óskað eftir gagnkvæmum skilningi á mismunandi lausnum fyrir landssvæði.
Hjá okkur í Hafnarfirði er Reykjanesbrautin stóra málið. Umferðin er gríðarleg, ekki síst vegna fjölgunar
íbúa og aukins ferðamannaþunga til og frá Keflavík. Tvöföldun Reykjanesbrautar þarf að klára og tryggja
umferðaröryggi en þar liggja nokkur af hættulegustu gatnamótum landsins. Þetta verður hins vegar ekki
gert með enn einni skítareddingunni til einhverra ára.

Í yfir 20 ár höfum við búið við algera bráðabirgðalausn í samgöngumálum á helstu stofnæðum bæjarins.
Það þarf að tala skýrt og það þarf samstöðu stjórnmálaafla. Við eigum að leggja Reykjanesbrautina í
stokk og krefjast þess að umferðaröryggi í Hafnarfirði verði sett á oddinn við forgangsröðun
samgönguverkefna á svæðinu.

Stokkur, göng eða hvað sem við viljum kalla það er engin útópía heldur
tæki til að auka öryggi og lífsgæði okkar Hafnfirðinga. Hættum þessum skammtímalausnum. Göngum
hreint og sameinuð til verks. Setjið X við C á kjördag.

Þorgerður Katrín er Hafnfirðingur og formaður Viðreisnar