Þeir félagar Valdimar Svavarsson og Hlynur Sigurðsson rituðu grein í Fjarðarpóstinn fyrir skemmstu og deildu með okkur skoðunum sínum á nokkrum þáttum er varða byggingu knatthúss í Kaplakrika. Mér finnst því sjálfsagt að ég blandi mér í það samtal og komi viðhorfi Viðreisnar í málinu til skila. Þó svo að fjórir bæjarfulltrúar séu samferða í málinu þýðir það ekki að forsendur flokkanna séu þær sömu. Ég birti hér punkta þeirra félaga og blanda mér í umræðuna við hvern og einn punkt.

  • Ítrekað hefur verið gefið í skyn að fjárhagsstaða FH sé slæm, illa sé farið með fé og félagið geti ekki tekið að sér framkvæmdina. Hið rétta er að eigið fé FH er um1100 milljónir, félagið er í skilum og hefur verið í skilum með sínar skuldbindingar. Allar framkvæmdir sem félagið hefur sinnt, eins og bygging eldri knatthúsa og flýtisamninga við bæinn hafa verið á áætlun og kláraðir.

Hlutverk bæjarfulltrúa er að tryggja að farið sé vel með fé bæjarins. Sé farin sú leið að fá utanaðkomandi aðila til að taka að sér uppbyggingu fyrir skattfé Hafnfirðinga er skylda okkar að kanna burði viðkomandi til verksins, kanna viðskiptasögu og fjárhagsstöðu á þeim tímapunkti sem samið er. Að túlka það sem aðdróttanir, vantraust eða eitthvað álíka er firra. Það að upplýsa gæslumenn bæjarsjóðs ekki um eðlilegar viðskiptaupplýsingar skapar tortryggni. Það að ætla að það búi eitthvað annað að baki en vilji til að vanda til verka og krefja alla framkvæmdaraðila um sömu upplýsingar áður en gengið er til samninga eru ekki eðlileg viðbrögð. Eigið fé félagsins er bókhaldslegt og segir í raun ekkert um mögulegt verð sem fengist fyrir eignirnar enda enginn verðmyndandi markaður með slíkar eignir, ekki frekar en með gangstéttir bæjarins.

  • Í umræðum á bæjarstjórnarfundum hefur minnihlutinn haldið því fram að bærinn ætli að kaupa hús sem hann á nú þegar af FH. Hið rétta er að Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti árið 1989 að gefa FH íþróttahúsið í Kaplakrika. FH hefur haft húsið í sínum bókum frá 2005 í samræmi við þessa samþykkt án athugasemda frá eftirlitsnefnd Hafnarfjarðarbæjar um fjármál íþróttafélaga.

Staðreynd þessa liðar er sú að hér greinir fólki á um hvernig beri að túlka þrjátíu ára gamlan gjafagjörning sem aldrei hefur verið fullnustaður. Við teljum rétt að jafn veigamiklum þætti í þessari fléttu allri sé komið á hreint áður en hringekjan fer af stað. Hér er um lögfræðilegt álitamál og sem bæjarfulltrúum ber okkur skylda til að fá úr þessu skorið. Húsið er enn á bókum bæjarins og hefur bærinn nýtt þessa eign til veðsetningar lífeyrisskulda sinna. Allir samningar sem gerðir hafa verið milli bæjarins og FH gera ráð fyrir upprunalegu eignarhaldi aðilanna. Vönduð stjórnsýsla myndi greiða úr slíkum vafa áður en farið er að versla með eignina.

  • Í umræðum á bæjarstjórnarfundum og í fjölmiðlum hefur því verið haldið fram að bærinn hafi ofgreitt leigu vegna Risans og ætti þar af leiðandi í raun Risann. Hið rétta er að Bærinn og FH gerðu leigusamning um leigu á tímum í Risanum þegar hann var tekinn í notkun og er sá samningur enn í gildi en engin ákvæði eru um kaup eða kaupleigu í þeim samningi. Með sömu rökum mætti segja að bærinn ætti líka húsnæði Íslandsbanka sem leigt er af bankanum fyrir bæjarskrifstofurnar?

Staðreyndin hér er sú að minnihluti bæjarstjórnar finnst rétt að kanna það ofan í kjölinn hvert rétt leiguverð fyrir tíma í mannvirkjum á Kaplakrika eigi að vera. Rétt leiguverð skilgreinist sem gjald sem dekkar rekstrarkostnað fasteignarinnar ásamt árlegum afborgunum og vöxtum af stofnkostnaði sem enn hvíla á fasteigninni. Ég tel að það sé bæði heilbrigt og gott að fyrir liggi greining á því hver rétt leiga sé í raun og veru. Komi það í ljós að Hafnarfjarðarbær hafi ofgreitt leigu þykir okkur rétt að ræða það. Eins þykir okkur rétt að bæta FH upp vangoldna leigu komi það í ljós að leigugjald hafi verið vanáætlað. Það er alveg ljóst að fulltrúi Viðreisnar hefur aldrei látið í veðri vaka að um kaup eða kaupleigu sé að ræða og til að taka af allan vafa þá eru knatthúsin í Kaplakrika eign FH og FH knatthúsa.

  • Fullyrt er að skuldir FH séu það miklar að félagið ráði ekki við þær og ætli að greiða þær niður með leigusamningi við bæinn. Hið rétta er að allar skuldir félagsins eru í skilum. Skuldir vegna byggingar Risans og Dvergsins hafa farið lækkandi á síðustu árum. Kaplakrikahópurinn er samstarfsvettvangur bæjarins og FH og mun hann koma með tillögu að rekstrar og/eða leigusamningi vegna knatthúsanna. 

Fari svo sem horfir að FH byggi nýtt knatthús með fé bæjarins og eftirláti bænum eignarhaldi annarra húsa í staðinn veðbandalausar er ljóst að ríflega 300 mílljóna skuldir FH muni færast yfir á nýja húsið. FH mun þurfa að halda áfram að greiða af þessum skuldum. Ég tel rétt af okkur að spyrjast fyrir um það hvernig eigi að reka húsið þar sem ársreikningur FH knatthúsa frá 2017 sýnir ekki fram á lækkun skulda heldur þvert á móti hækkuðu þær um 3 milljónir milli ára, úr 320 milljónum í 323 milljónir. En hárrétt ábending um að skuldir við lánastofnanir eru í skilum og fara lækkandi, hins vegar hafa viðskiptaskuldir hækkað óeðlilega mikið og rétt að ávarpa þann rekstrarvanda. Með það í  huga er það ábyrgðarhluti að snerta á þessum þætti.  Sagan segir okkur að komst íþróttafélag í geiðsluvandræði koma bæjarfélög að öllu jöfnu til hjálpar. Í mínum huga eru þessar fyrirspurnir dæmi um ábyrga stjórnsýslu.

  • Einnig er því jafnframt fram að forysta FH ætlist til þess að 790 milljóna greiðsla sé bara byrjun á greiðslum bæjarins til félagsins og vísar þar í viðtal við formann knattspyrnudeildar FH. Hið rétta er að FH á skv. rammasamkomulagi um kaup á húsunum þremur ekki frekari kröfu um greiðslu frá Bænum og krefst hennar ekki. Aftur á móti telur félagið að verðmæti eigna félagsins sé meira en 790 milljónir en Kaplakrikahópur mun hafa umsjón með gerð eignaskiptasamnings milli aðila þar sem verðmæti og skipting eignahluta á svæðinu verður frágengin.

Staðreyndin hér er sú að það er enginn lifandi markaður með íþróttahús íþróttafélaga. Eini mögulegi kaupandi slíkra húsa er viðkomandi sveitarfélag og það verð sem sveitarfélagið er tilbúið að greiða er í raun peningalegt verðmæti fasteignanna, verðið er pólitísk ákvörðun. Það er hins vegar rétt að það hefur kostað mikið fé og sjálfboðavinnu að koma upp þessum mannvirkjum en byggingarkostnaður mínus afskriftir er bara bókhaldsleg verðmæti og segir ekkert til um raunveruleg verðmæti.

Kostirnir við að fara leið bæjarstjórnar að mati þeirra félaga eru:

  • Í stað þess að greiða rúmlega 1,1 milljarð fyrir knatthúsið, eins og útboð í húsið hljóðaði upp á í vor, tekur FH að sér verkið og nýtir til þess fjármuni sem fást við sölu eigna að upphæð 790 milljóna króna. Fari verkið fram úr áætlun verður það á ábyrgð félagsins en ekki bæjarins. Með þessu sparar bærinn rúmar 300 milljónir.

Verkfærðistofa hefur metið það svo að svona mannvirki miðað við gefnar forsendur sé um 900 milljónir króna. Stór hluti kostnaðar liggur í grind á klæðningu sem framleidd er erlendis. Mér þykir einkennilegt að ekki skuli hafa verið haft samband við fleiri framleiðendur til að pressa niður þennan stærsta einstaka kostnaðarlið. Eitt af því sem liggur fyrir Alþingi á vetri komanda er þingmannafrumvarp um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annara framkvæmda sem leggur til að íþróttafélögum sé heimilt að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af allri vinnu og öllu efni þegar félög ráðast í byggingu íþróttamannvirkja. Verði af því mun byggingarkostnaður lækka sem nemur tæpum 200 milljónum króna. Þetta vekur upp siðferðislegar spurningar m.a. þá hvort hið opinbera eigi að ganga fram fyrir skjöldu og reyna eftir fremsta megni að komast hjá skattgreiðslum sem eru tekjur hins opinbera? Á hið opinbera að haga sér eins og einkaaðili á markaði? Svari hver fyrir sig.

Verði niðurstaðan sú að FH takist að reisa húsið fyrir töluvert lægri upphæð heldur en téðar 790 milljónir hvað þá? Á FH að njóta þess eða væri meiri bragur af því og réttlæti að afgangurinn rynni í næsta verkefni á forgangslista ÍBH? Svari hver fyrir sig.

  • Knatthús verður tekið í notkun fyrrihluta ársins 2019 og þar með fá um 1000 iðkendur loks ásættanlega aðstöðu til að æfa knattspyrnu hjá FH.

Ég er sammála því að því fyrr sem húsið rís því betra fyrir knattspyrnustarfið hjá FH. Ég er líka á því að Hafnfirðingar allir eigi rétt á gagnsærri og vandaðri stjórnsýslu, því þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst málið ekki um knatthús eða FH heldur um vandaða stjórnsýsluhætti.

  • Knatthúsið sem FH mun reisa er hagkvæmasti kosturinn sem í boði er, bæði að teknu tilliti til kostnaðar við að reisa húsið og vegna rekstrar þess. Í grófum dráttum má segja að svona hús sé ríflega helmingi ódýrara en hin svokölluðu „heitu hús“ og rekstarkostnaðurinn sáralítill í samanburði.

Kalt hús er svo sannarlega ódýrara en upphitað hús. Það hafa hins vegar engin gögn verið lögð fram um að heildarkostnaður verkefnisins verði bænum hagkvæmari miðað við þá leið sem meirihlutinn kaus að fara eða ekki. Áhætta bæjarins á því að kaupa gömul hús er mikil þar sem viðhaldskostnaður  næstu tíu ára verðu án efa töluvert hærri af þeim en hinu nýja.

Það er nýkjörnum bæjarfulltrúa umhugsunarefni að þurfa að mæta jafn miklu viðnámi þegar kemur að upplýsingagjöf. Að gera lítið úr spurningum okkar og ákalli eftir gögnum eru undarleg viðbrögð í besta falli. Mín skylda sem bæjarfulltrúi er að mynda mér skoðun og taka ákvarðanir á grundvelli gagna og þarf því að spyrja krefjandi og á stundum leiðinlegra spurninga. Það er of stutt síðan að Hafnarfjörður kom sér í hræðilega fjárhagsstöðu, við erum rétt nýkomin úr fjárhagslegri öndunarvél. Það er því skylda okkar kjörinna fulltrúa að vanda vel til verka, flýta sér hægt og fá allt upp á borðið þannig að bragur sé af.

 

Jón Ingi Hákonarson, bæjarfulltrúi og oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði.