Útfararþjónusta Hafnarfjarðar var stofnuð árið 2002 af Hálfdáni Hálfdánarsyni og konu hans, Ólöfu Helgadóttur. Árið 2015 bættist Frímann Andrésson í hópinn, eftir að hafa viðað að sér fjölbreyttri reynslu í útfarargeiranum. Fjarðarpósturinn kíkti í heimsókn í fallega og afar vinalega aðstöðu þeirra við Stapahraun 5.  

Útfararþjónustan er á tveimur hæðum. Á jarðhæð fer fram kistusmíði og þar er einnig bílageymsla, en fyrirtækið rekur fjóra líkbíla. Á efri hæðinni er svo hlýleg móttaka, skrifstofa og saumastofa. „Við erum eina útfararþjónustan með aðsetur í Hafnarfirði. Það er okkar heimasvæði þótt við sinnum öllu höfuðborgarsvæðinu. Við leggjum áherslu á nöfnin okkar, Frímann og Hálfdán, því þjónustan er persónuleg og fólk veit þá bara strax hvað við heitum,“ segir Hálfdán.

Frímann, Hálfdán og Ólöf við tvo af fjórum bílum sem fyrirtækið rekur. Á 1. hæð fer einnig kistusmíðin fram.

Góð nærvera nauðsynleg

Hvergi er boðið upp á nám í útfararþjónustu og því liggur beinast við að spyrja þríeykið hvað þarf til að vera góður útfararstjóri. „Þau sem veljast í þessi störf og vilja sinna því vel þurfa að hafa góða nærveru og kunna að umgangast fólk. Það kemur bæði með reynslu í starfinu og lífsreynslu. Við hittum fólk á þeirra viðkvæmustu stundum,“ segir Frímann og blaðamaður spyr hvort það taki ekki stundum á. „Það má skipta þessu í tvennt. Annars vegar þegar fólk hefur náð þeim aldri að verða gamalt og eru það hins vegar frávikin þegar fólk fer í blóma lífsins, sem börn eða tekur eigið líf. Stundir með aðstandendum þeirra og útfarir snerta mann mest. Suma daga getur þetta gengið nærri manni og í raun væri kominn tími til að skipta um starf ef það gerði það ekki.“

Í hlutverk sálgæsluaðila

Hvað gerið þið til að hlúa að ykkur þegar þetta tekur á? „Við spjöllum saman hérna. Við kappkostum að fara ekki með erfiða daga í vinnunni heim. Við getum líka átt misjafna daga sjálf vegna þátta sem eru ótengdir starfinu, eins og allir aðrir. Við erum mannleg þótt við séum fyrst og fremst fagleg,“ segir Frímann og bætir við: „Við höfum lagt upp með að fólki líði sem best þegar það kemur hingað. Við þurfum stundum að fara aðeins í hlutverk sálgæsluaðila, gefa af okkur og segja frá eigin reynslu þegar við leiðbeinum aðstandendum. Fólk finnur traustið og það hjálpar í þessum aðstæðum.“

Saumastofan á 2. hæð.

Hálfdán og Ólöf byrjuðu í útfarargeiranum þegar Hálfdán smíðaði líkkistur fyrir útfararþjónustur. „Árið 1996 var lögum breytt á jafnréttisgrundvelli til að koma í veg fyrir einokun og kirkjugarðar máttu ekki lengur reka útfararþjónustur. Áður var útfararþjónusta niðurgreidd með kirkjugarðsgjöldum en eftir lagabreytinguna voru kirkjugarðarnir og útfararþjónusta aðskilin. Þá stofnuðum við Ólöf Útfararþjónustu Hafnarfjarðar,“ segir Hálfdán.

Frímann byrjaði sem starfsmaður hjá Kirkjugörðum Reykjavíkurpófastdæmis 16 ára gamall. „Ég vann alltaf með framhaldsskólanum á sumrin. Fékk svo fasta vinnu þar sem vélamaður og grafari. Svo nokkrum árum síðar losnaði sumarstarf hjá útfararþjónustu í Reykjavík og þar var ég í 19 ár þar til ég kom hingað. Á þeim tíma var ég ekkert að hugsa um þetta starf sem eitthvað framtíðarstarf. En það varð það nú samt,“ rifjar Frímann upp.

Nokkrar tegundir af kistum sem seldar eru hjá þeim.

Sumir skipuleggja eigin útför

Frímann segir og Hálfdán tekur undir að stundum þurfi aðstandendur hjálp við að velja allt sem tengist útförum en einnig sé fólk stundum búið að skipuleggja eigin jarðarfarir frá A til Ö. „Sem betur fer er þetta þannig að aðstandendur geta nánast bara farið á einn stað við andlát og útfararstjóri fer í gegnum þá þjónustu sem er í boði. Verðskráin okkar er á heimasíðunni og fólk veit að hverju það gengur. Verðin eru eðlilega mjög mismunandi. Það er hægt að velja ódýrar leiðir en einnig aðrar dýrari,“ segir Frímann. Spurður um óvenjulegar beiðnir segir Frímann það kannski helst að skrifa texta á kistur, hafa þær í óvenjulegum litum og setja eitthvað ofan í þær, s.s. persónulega muni.

Gott og fjölbreytt starf

Þríeykið er sammála um að starfið sé gott og fjölbreytt. „Maður er úti um allt og hittir fólk. Ég kann vel að meta það. Þetta er líka afar gefandi og fólk sýnir oft þakklæti. Dagarnir geta líka breyst í einni svipan, t.d. þegar við þurfum að sinna útköllum við að sækja látinn einstakling á hjúkrunarheimili eða í heimahús,“ segir Frímann. Við framleiðum líka kistur og sendum um allt land,“ bætir Ólöf við. „Þótt við vitum nokkurn veginn hvaða athafnir eru fram undan þá geta svona hlutir breytt deginum skyndilega. Tíðni andláta er mjög sveiflukennd milli mánaða,“ segir Hálfdán.

Kistur tilbúnar með öllu sem til þarf fyrir útför.

Nákvæmni og stundvísi

Viðtöl við aðstandendur taka um klukkustund, til eða frá, og Frímann tekur fram að þau ýti engu að fólki. Þeirra hlutverk sé að leiðbeina. „Nákvæmni og stundvísi skipta miklu máli í okkar starfi. Hver athöfn er bein útsending og verður ekki endurtekin. Við viljum ekki að eitthvað óvænt komi upp á því að fólk treystir okkur. Við erum líka með heilmikið tengslanet, t.a.m. af tónlistarfólki, prestum, kirkjuvörðum og blómabúðum. Öll skipulagsvinna gengur út á fastar tímasetningar og gott skipulag milli allra þessara aðila.“

Hver athöfn er bein útsending

Blaðamaður spyr að lokum hvað er mest gefandi við starf útfararstjóra. Hálfdán byrjar: „Maður sér það fallega og góða í fólki á svona stundum. Þetta eru stundirnar þar sem fólk gefur af sér og það opnast fyrir tilfinningarnar.“ Frímann bætir við: „Svo beygir fólk stundum af þegar það sér aðra syrgja. Og það má. Útfarir hafa líka þróast og breyst. Áður fyrr voru aðallega sálmar en núna er meira um fjölbreyttari tónlist. Hér áður fyrr voru prestar oft með þungar ræður. Í dag er oftar slegið á létta strengi í minningarorðunum, þegar það á við, og aðstandendur biðja presta sérstaklega um það. Þannig ná þeir oft betur til fólksins. Hlátur er líka tilfinningar,“ segir Frímann.

Myndir/OBÞ