Starfsfólki Skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu sá ástæðu til að senda foreldrum grunnskólabarna í Hafnarfirði erindi vegna þess að þeim var gert viðvart um neikvæða umræðu um nemendur í grunnskólum í bænum meðal foreldra á samfélagsmiðlum, s.s. á Facebook. Umræðan hafi átt sér stað á hópvettvangi og á eigin aðgangi og snúist um (meinta) hegðun barna, s.s. ofbeldistilburði og einelti gagnvart samnemendum og öðrum börnum í samfélaginu. Í nokkrum tilvikum hafi nemendurnir verið nafngreindir og frjálslega rætt um hegðun þeirra.

„Hegðun og samskipti nemenda er daglegt viðfangsefni bæði skóla og foreldra. Ef foreldrar verða varir við, eða vitni að, alvarlegum misbresti í hegðun einstakra nemenda og í samskiptum þeirra við önnur börn, er mikilvægt að þeir komi þeim upplýsingum sem allra fyrst til foreldra viðkomandi barna, skóla eða til barnaverndar ef um alvarleg tilfelli er að ræða. Misbrestur í hegðun er ekki málefni sem á að ræða á samfélagsmiðlun. Slík umræðu leysir ekki vandann auk þess sem verið er að brjóta á persónuvernd barnanna.

Við viljum þannig beina því til foreldra, sem uppalenda og fyrstu fyrirmynda barna, að forðast að ræða hegðun annarra barna á opinberum vettvangi, nafngreina börn sem eru talin hafa orðið uppvís af slæmri hegðun, eða að segja óstaðfestar eða einlitar sögur sem henta eigin hagsmunum. Hvorki viðkomandi barn/börn né foreldrar þess/þeirra geta varið sig í slíkri umræðu.

Dæmin sanna einnig að umræða í þessa veru er oft mjög fljót að vinda upp á sig og er hvorki viðkomandi barni, né þeim sem miðla slíkum sögum, í hag. Hér er mikilvægt að hafa í huga ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna til að fá að tjá sig um eigin málefni og að tekið sé réttmætt tillit til skoðanna þeirra í samræmi við aldur og þroska.

Sömuleiðis er vert að geta þess að börn, sem sérstaklega viðkvæmur hópur, njóta persónuverndar og réttinda til friðhelgi sem samfélagsþegnar í lýðræðissamfélagi sem ber að virða í öllum tilvikum.“

Munum ávallt að aðgát skal höfð í nærveru sálar!

Fyrir hönd Skrifstofu fræðslu- og frístundaþjónustu

Eiríkur Þorvarðarson, deildarstjóri/sálfræðingur