Hafnarfjarðarbær afhenti viðurkenningar fyrir snyrtileika og fegurð eigna, garða og gatna í Hafnarfirði við hátíðlega athöfn í húsnæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar í blíðaskaparveðri miðvikudaginn 29. ágúst. Fjöldi ábendinga frá bæjarbúum og starfsmönnum fyrirtækja í Hafnarfirði barst þegar óskað var eftir tilnefningum til viðurkenninga fyrir snyrtileika og fegurð lóða og garða í sveitarfélaginu. Nánar verður fjallað um hverja viðurkenningu fyrir sig í tölublaði Fjarðarpóstsins í næstu viku. 

Eigendur garða við Álfaskeið 85, Brekkuás 15, Erluhraun 15, Fjóluhvamm 9, Gauksás 37, Hellisgötu 7, Jófríðarstaðaveg 13 og Spóaás 18 fengu viðurkenningu fyrir fallega og snyrtilega garða með fjölbreytni í gróðri, góða hirðingu og metnað í garðyrkjustörfum sínum þrátt fyrir rigningarsumar. Þá fékk Norðurbakki 23 og 25 a-d viðurkenningu fyrir skemmtilega og fallega fjölbýlishúsalóð við strandstíginn sem gerir gönguferð þeirra sem ganga stíginn ánægjulega þar sem eigendur hafa gert sína hellulögðu afnotafleti fallega með allavega mublum, blómakerjum, hitalömpum og allavegana garðskrauti.

Umsögn um Álfaskeið 85: Mjög fallegur og snyrtilegur bakgarður með góðu úrvali plantna.

Umsögn um Brekkuás 15: Mjög snyrtilegur og vel hannaður garður með fallegri aðkomu.

Umsögn um Erluhraun 15: Þessum garði hefur verið haldið vel við til fjölda ára og er alltaf jafn gaman að ganga Erluhraunið og horfa upp að þessu húsi því aðkoman er sérlega falleg.

Umsögn um Fjóluhvammur 9: Sérlega snyrtilegur garður með vandlega klipptum gróðri.

Umsögn um Gauksás 37: Mjög snyrtilegur og fallegur garður með mikla fjölbreytni í gróðri, húsið stendur á horni og er nokkuð afgerandi í götumyndinni.

Umsögn um Hellisgötu 7: Aðlaðandi garður með fallegri aðkomu. Mikil snyrtimennska, öll beð voru fallega skorin og hvergi sást illgresi í beðum.

Umsögn um Jófríðarstaðaveg 13: Mjög fallegur garður með samfellt og gott viðhald í áraraðir en hann er bæði stór með stórum beðum sem kalla á mikla vinnu og var aðdáunavert að sjá hversu vel hann hefur verið hirtur í rigningunni í sumar.

Umsögn um Spóaás 18: Mjög fallegur og snyrtilegur garður með fallegri aðkomu.

Umsögn um Norðurbakka 23 og 25 a – 25 d: Mjög skemmtileg og falleg fjölbýlishúsalóð við strandstíginn.

Snyrtilegustu lóðirnar við fyrirtæki á athafna- og iðnaðarsvæðum

Tvö fyrirmyndarfyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir umhverfisfrágang á nýju athafnasvæði á Völlunum. Icelandair hefur lagt mikinn metnað í að laga lóð sína við Flugvelli að umhverfinu en allar gönguleiðir eru hellulagðar og snyrtilegar. Þá blasir fjölbreyttur gróður og falleg hraunhleðsla við þegar gengið er inn um aðalinngang og þar er aðstaða fyrir reiðhjól til fyrirmyndar, góð lýsing og flokkunartunnur. Rafal ehf. við Hringhellu 9 sker sig úr í hverfinu með mjög snyrtilega lóð með góðri aðstöðu fyrir starfsfólk með bekkjum og borðum, gróðri, hleðslum og hellulögðu stæði fyrir fatlaða. Lóðin er til fyrirmyndar og öðrum fyrirtækjum á þessum stað hvatning til að gera slíkt hið sama.

Icelandair hefur lagt mikinn metnað í að laga lóð sína við Flugvelli að umhverfinu en allar gönguleiðir eru hellulagðar og snyrtilegar. Þá blasir fjölbreyttur gróður og falleg hraunhleðsla við þegar gengið er inn um aðalinngang og þar er aðstaða fyrir reiðhjól til fyrirmyndar, góð lýsing og flokkunartunnur.

Rafal ehf. við Hringhellu 9 sker sig úr í hverfinu með mjög snyrtilega lóð með góðri aðstöðu fyrir starfsfólk með bekkjum og borðum, gróðri, hleðslum og hellulögðu stæði fyrir fatlaða. Lóðin er til fyrirmyndar og öðrum fyrirtækjum á þessum stað hvatning til að gera slíkt hið sama.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fékk heiðurverslun fyrir brautryðjandastarf í landgræðslu, gróðurvernd og fjölbreyttri trjá- og skógrækt en verðlaunin eru ætið afhent í Gróðrarstöðinni Þöll sem skógræktin rekur við Kaldárselsveg.

Með viðurkenningunum vill Hafnarfjarðarbær vekja áhuga almennings á fegrun umhverfis innan bæjarins með því að beina athyglinni að þeim sem til fyrirmyndar teljast og ættu þannig að vera öðrum hvatning til framkvæmda.

Myndir: Hafnarfjarðarbær.