Það er sérkennilegt að þurfa að setjast niður og skrifa grein vegna meiðandi ummæla bæjarfulltrúa minnihlutans gagnvart íþróttafélagi og stjórnarmönnum þess. Það er engu að síður tilfellið í kjölfar þess að bæjarstjórn Hafnarfjarðar ákvað leysa brýnan aðstöðuvanda knattspyrnudeildar FH, sem nýtast mun þeim 1000 börnum sem æfa knattspyrnu hjá félaginu, næst stærstu knattspyrnudeild landsins.

FH-ingar hafa nú í fimm áratugi unnið að uppbyggingu félagssvæðis sín í Kaplakrika. Mikið hefur áunnist í áranna rás. Forystumenn félagsins hafa á þessum árum unnið óeigingjarnt starf af miklum dugnaði, eldmóð og framtíðarsýn. Félagið hefur þannig í gegnum tíðina skapað verðmæti með vinnu og fjárframlögum einstaklinga og fyrirtækja skapað aðstöðu fyrir félagið og um leið mikil verðmæti og eignir sem endurspeglast í sterkri fjárhagsstöðu félagisins.

Nú síðast hafa félagið, velunnarar og forráðamenn iðkenda styrkt byggingu Dvergsins með tuga milljóna greiðslum frá árinu 2014. Vegna Dvergsins hefur Hafnarfjarðarbær ekki greitt krónu, hvorki í beinum framlögum né með rekstrarstyrk.

 

Hvað hefur verið sagt

Umræðan hefur verið óvægin, bæði hefur verið farið rangt með upphæðir sem félagið á að hafa fengið auk þess sem fjárhagsupplýsingar hafa verið túlkaðar mjög frjálslega, svo ekki sé meira sagt.

Rangfærslur í umræðunni:

  • Ítrekað hefur verið gefið í skyn að fjárhagsstaða FH sé slæm, illa sé farið með fé og félagið geti ekki tekið að sér framkvæmdina. Hið rétta er að eigið fé FH er um1100 milljónir, félagið er í skilum og hefur verið í skilum með sínar skuldbindingar. Allar framkvæmdir sem félagið hefur sinnt, eins og bygging eldri knatthúsa og flýtisamninga við bæinn hafa verið á áætlun og kláraðir.
  • Í umræðum á bæjarstjórnarfundum hefur Guðlaug Kristjánsdóttir ásamt þremur öðrum bæjarfulltrúum minnihlutans haldið því fram að bærinn ætli að kaupa hús sem hann á nú þegar af FH. Hið rétta er að Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti árið 1989 að gefa FH íþróttahúsið í Kaplakrika. FH hefur haft húsið í sínum bókum frá 2005 í samræmi við þessa samþykkt án athugasemda frá eftirlitsnefnd Hafnarfjarðarbæjar um fjármál íþróttafélaga.
  • Í umræðum á bæjarstjórnarfundum og í fjölmiðlum hefur Guðlaug Kristjánsdóttir ásamt þremenningunum haldið því fram að bærinn hafi ofgreitt leigu vegna Risans og ætti þar af leiðandi í raun Risann. Hið rétta er að Bærinn og FH gerðu leigusamning um leigu á tímum í Risanum þegar hann var tekinn í notkun og er sá samningur enn í gildi en engin ákvæði eru um kaup eða kaupleigu í þeim samningi. Með sömu rökum mætti segja að bærinn ætti líka húsnæði Íslandsbanka sem leigt er af bankanum fyrir bæjarskrifstofurnar?
  • Í viðtali á Bylgjunni fullyrti Guðlaug Kristjánsdóttir að FH hafi fengið 48 milljónir í mannvirkjastyrk frá KSÍ. Hið rétta er að FH hefur sótt um styrk að upphæð 15 milljónir króna sem er hámarksstyrkur frá KSÍ vegna einstaks verkefnis en ekki fengið krónu greidda þar sem ekkert hús hefur enn risið.
  • Í grein á Kjarnanum fullyrðir Guðlaug að skuldir FH séu það miklar að félagið ráði ekki við þær og ætli að greiða þær niður með leigusamningi við bæinn. Hið rétta er að allar skuldir félagsins eru í skilum. Skuldir vegna byggingar Risans og Dvergsins hafa farið lækkandi á síðustu árum. Kaplakrikahópurinn er samstarfsvettvangur bæjarins og FH og mun hann koma með tillögu að rekstrar og/eða leigusamningi vegna knatthúsanna.
  • Í sömu grein heldur hún því jafnframt fram að forysta FH ætlist til þess að 790 milljóna greiðsla sé bara byrjun á greiðslum bæjarins til félagsins og vísar þar í viðtal við formann knattspyrnudeildar FH. Hið rétta er að FH á skv. rammasamkomulagi um kaup á húsunum þremur ekki frekari kröfu um greiðslu frá Bænum og krefst hennar ekki. Aftur á móti telur félagið að verðmæti eigna félagsins sé meira en 790 milljónir en Kaplakrikahópur mun hafa umsjón með gerð eignaskiptasamnings milli aðila þar sem verðmæti og skipting eignahluta á svæðinu verður frágengin.

 

Hafnarfjarðarbær hefur gjarnan verið kallaður íþróttabær – og það með sanni. Fá bæjarfélög geta státað af jafn mörgum Íslandsmeistaratitlum í hinum ýmsu greinum og Hafnarfjörður. En með fjölgun íbúa og með auknum niðurgreiðslum til iðkenda fjölgar þeim sem æfa íþróttir. Frá því að Risinn var reistur árið 2005 hefur fjöldi barna sem æfa knattspyrnu hjá FH þrefaldast þó svo að knattspyrnuvöllum hafi ekki fjölgað að frátöldum Dvergnum.

 

Kostirnir við að fara leið bæjarstjórnar:

  • Í stað þess að greiða rúmlega 1,1 milljarð fyrir knatthúsið, eins og útboð í húsið hljóðaði upp á í vor, tekur FH að sér verkið og nýtir til þess fjármuni sem fást við sölu eigna að upphæð 790 milljóna króna. Fari verkið fram úr áætlun verður það á ábyrgð félagsins en ekki bæjarins. Með þessu sparar bærinn rúmar 300 milljónir.
  • Knatthús verður tekið í notkun fyrrihluta ársins 2019 og þar með fá um 1000 iðkendur loks ásættanlega aðstöðu til að æfa knattspyrnu hjá FH.
  • Knatthúsið sem FH mun reisa er hagkvæmasti kosturinn sem í boði er, bæði að teknu tilliti til kostnaðar við að reisa húsið og vegna rekstrar þess. Í grófum dráttum má segja að svona hús sé ríflega helmingi ódýrara en hin svokölluðu „heitu hús“ og rekstarkostnaðurinn sáralítill í samanburði.

 

Líkt og sagt var í upphafi þessarar greinar er sérstakt að finna sig knúinn til verjast rangfærslum kjörinna bæjarfulltrúa á hendur stærsta íþróttafélagi bæjarins. Það er erfitt fyrir íþróttafélag að sogast inn í pólitíska umræðu – ítrekað hefur félagið boðist til að kynna sína hlið fyrir bæjarfulltrúum. Það er því ósk okkar að þeir þiggi það boð í stað þess að fara með rangt mál í fjölmiðlum.

 

Með von um gott samstarf í framtíðinni, íþróttabænum til heilla.

 

Hlynur Sigurðsson, varaformaður FH

Valdimar Svavarsson, varaformaður knd FH