Leikarinn Arnar Dan Kristjánsson ólst upp í Kinnunum og Setberginu, sem miðjubarn í þriggja alsystkina hópi. Í dag býr hann ásamt unnustu sinni, Sigríði Soffíu Hafliðadóttur og tveimur sonum að Suðurbraut. Arnar Dan starfar sem leikari við Borgarleikshúsið og vakti m.a. athygli á síðasta leikári fyrir leik sinn í gríska harmleiknum Medeu og í söngleik Richards O’Brien, Rocky Horror Show. Þar leikur hann Rocky sjálfan, sem hann segir að sé á ýmsan hátt líkur sér. Við hittum Arnar Dan í Íshúsi Hafnarfjarðar og ræddum m.a. við hann um mikilvægi kærleika og viðhorfsins að líta á lífið sem sífellt nám.  

Arnar Dan var að eigin sögn forvitið og uppátækjasamt barn og með brennandi áhuga fyrir  ævintýrum lífsins. Stöðugt úti að koma sér í klandur og vesen. ,,Þá hafði ég ekkert hugsað út í leikhúsið eða leiklist eða hugleitt að það gæti verið staðurinn fyrir mig. Ég var dálítið seinn til, æfði sund og spilaði á gítar og trommur. Ég kláraði stúdentsnám í Flensborg og á afar hlýjar minningar úr skólanum. Maggi skólastjóri er mikill meistari sem gaf mér frábær meðmæli. Ég gef honum mín bestu meðmæli líka og öllum sem þar kenndu mér.“ Í Flensborg kynntist Arnar Dan listagyðjunni þegar hann skrifaði söngleikinn Sorrý að ég svaf hjá systur þinni með Frey Árnasyni og Hermanni Óla Davíðssyni. „Þetta var mikið verkefni sett upp í Hamarssal. Eimskip létu okkur fá 500 vörubretti í risa viðarstúku og sýningarnar urðu þónokkrar. Þetta voru fyrstu kynni mín af uppsetningarferli og ég man að glíman við verkefnið kveikti í mér. Ég var aðstoðarleikstjóri, handritshöfundur og lék í verkinu,“ rifjar Arnar Dan upp.

Arnar Dan var snöggur að spotta Shakespeare bók í einni hillunni í Íshúsi Hafnarfjarðar og fékk bókin að sjálfsögðu að vera með á mynd. Mynd/Olga Björt

Listfræði, heimspeki og sálfræði

Eftir framhaldsskóla fór sótti hann 16 eininga nám í listfræði og heimspeki á vegum Háskólans á Bifröst og Listaháskóla Íslands. „Þar kynntist ég mjög skemmtilegu og áhugaverðu fólki. Svo skellti ég mér bara í sálfræði við Háskóla Íslands í eitt ár. Ég hef lengi verið forvitinn um mannlegt atferli og fundist áhugavert að hugleiða hvernig hegðun okkar og framkoma séu smám saman meitluð með félagslegri styrkingu,“ segir Arnar Dan, sem á seinni önninni í sálfræðinni ákvað að skella sér í inntökupróf fyrir leikarann. ,,Ætli ég hafi ekki sótt um í leikarann því ég hafi verið félagslega styrktur í þá átt. Leikari á sviði finnur t.d. mikið fyrir þessari ‘instant’ styrkingu í gegnum hlátur, tíst, snökt eða hvað sem og getur orðið háður viðurkenningunni og viðbrögðum. Hann þarf að vera meðvitaður um það og halda í innsæið sitt, söguna og sannleikann.”

Erfitt en geggjað að upplifa sig ömurlegan

Arnar Dan segir að í Listaháskólnum hafi heilinn hans gjörsamlega „sprungið“. „Ég fann mig með þessu fólki sem var á svipaðri vegferð og ég; skapandi, rannsakandi, óhrætt og forvitið. Allskonar gredda – og er ennþá.“ Spurður um hvað hafi tekið mest á í leiklistarnáminu, segir Arnar Dan að erfiðast hafi verið að upplifa sig ömurlegan á einhverju sviði. „Það er þungur biti að kyngja. Trúðaáfanginn var ‘hellaður’. Mér fannst erfitt að eiga að vera fyndinn og fannst kerfið sem lagt var til grundvallar stórfurðulegt. Námið gat því verið erfitt og nærgöngult og ég upplifði mig oft ömurlegan. Sem var geggjað. Ég held að leiklistin hafi það fram yfir aðrar greinar að maður er alltaf á byrjunarreit. Ég elska glímuna við að fóta mig og vera rannsakandi. Þar finnst mér ég stækka mest, fyrir mér er það leikhúsið”

Megnið af hópnum sem gerir sýninguna Rocky Horror Show að veruleika á fjölum Borgarleikhússins. Arnar Dan segir mikinn kærleika ríkja í hópnum. Mynd/Borgarleikhúsið

Lærdómsríkur tími á Ítalíu

Eftir útskrift hafði Magnús Geir Þórðarson, þáverandi Borgarleikhússtjóri, samband og bauð Arnari Dan samning. „Ég var þar í ár eftir útskrift og fékk að hamast en fékk ekki endurráðningu og leitaði á ný mið og fór til Mílanó í hálft ár þar sem ég lék við Theatro Dell´arte. Það var gríðarlega lærdómsríkt og ég elskaði það að kunna ekki neitt. Viðhorfið til leikhúsins var allt annað og óperan fyrirferðamikil” segir Arnar Dan og tekur sér tíma til að hugsa áður en hann tekur aftur til máls og segir: „Ég mun búa aftur á ítalíu, það er ekki spurning.”

Þegar Arnar Dan kom heim var hann atvinnulaus en með ferska hugmynd og ákvað að stofna Reykjavík Chips ásamt vinum sínum þeim Frikka, Hemma og Óla. „Það var mikið ferðalag og stór skóli.“ Reykjavík Chips opnaði 17. júní 2015 og þeir voru búnir að reka staðinn í smá tíma þegar Arnar Dan fékk símtal frá Borgarleikshúsinu og boðið hlutverk í söngleiknum Mamma mia. „Á þessum tímapunkti var ég líka að leika í þýskri þáttaseríu og konan ólétt. Þetta var svakalegt tímabil og lítið um svefn.“

Arnar Dan og Páll Óskar Hjálmtýsson, sem leikur Frank-N-Furter. Mynd/Borgarleikhúsið

Frá því að Mamma mia var sett upp hefur Arnar Dan tekið þátt í ýmsum uppsetningum í Borgarleikhúsinu, leikur núna í Rocky Horror Show og í vetur verður hann í söngleiknum Matthildi og jólasýningunni Ríkharði þriðja sem Brynhildi Guðjónsdóttur leikstýrir. „Ég hef unnið mikið með Brynhildi og ég elska hana og hlakka til að vinna með henni sem leikstjóra. Einhvernveginn hafa söngleikirnir orðið fyrirferðamestir hjá mér – sem er gaman að hugsa út í, því ég skilgreini mig ekki sem söngvara. Ég hef reyndar hriklega gaman af þeim, enda forrétindi að fá að dreifa gleðinni og skemmta. Mér finnast söngleikirnir einmitt gera það. Slíkar uppfærslur eru líka mikill skóli í endurtekningunni og það skiptir máli að allir áhorfendur fái besta „showið“.“

Arnar Dan og Páll Óskar eru miklir vinir og Arnar Dan segir Pál Óskar hafa kæft fordóma með kærleika og fengið fólk til að hugsa vissa hluti uppá nýtt. Mynd/Borgarleikhúsið

Er líkur Rocky á ýmsan hátt

Eru Arnar Dan og Rocky líkir? „Barnsleg einlægni og samsömunin eru lykilatriði leikarans. Mæta með opið hjarta til að túlka karakter og dæma ekki. Þannig hleypir maður fólki að sér. Ég held að Rocky sé alveg þar. Hann er hugðarefni annars fólks og er í leit að sjálfum sér í heimi sem mætir honum á þessu eina augnabliki þar til hann er drepinn. Við erum báðir að leita að sjálfum okkur. Hann fer af stað í flótta frá því sem hann er skapaður til þess að vera þar til hann hleypur á vegg. Við höfum báðir hugrekkið að hlaupa í burtu til þess að taka ekki þátt í leik annarra. Rocky er mjög meðvrikur og áhrifagjarn. Hann lætur til leiðast án þess að átta sig á hvað er rétt og rangt í siðferði geimveranna,“ segir Arnar Dan.

Páll Óskar kyndilberi fjölbreytileikans á Íslandi

Hann segir hópinn í Rocky Horror vera sérlega samstilltan og kærleiksríkan og vonar að það skili sér inná sviðið. „Ég trúi því að galdurinn sé ekki síður fólginn í því, að huga  að vinnuandanum og leita í innblástur frá mótleikurum. Ég þarf t.d. ekki að leita langt til að gíra mig upp fyrir sýningar, verandi með Pál Óskar Hjálmtýsson mér við hlið. Fyrir mér hefur hann verið kyndilberi fjölbreytileikans á Íslandi í mörg ár og þær gjafir sem hann hefur gefið litlu þjöngsýnu Atlandshafseyþjóðinni ómetanlegar. Hann hefur kæft fordóma með kærleika og fengið fólk til að hugsa vissa hluti uppá nýtt.“

Spurður um líkindi verka eins og Medeu og Rocky Horror Show, segir Arnar Dan þau vera eðlis-ólík. „Markmiðið er samt alltaf það sama – að hreyfa við áhorfendum. Söngleikjaformið er flugveldasýning hins sjónræna en harmleikurinn meira svona flugveldasýning mannlegra misgjörða. Medeu ferlið var alveg sérstakt fyrir mér, leitt áfram af tilfiningatröllinu Hörpu Arnardóttur þar sem kæreikur og óttaleysi ríktu. Við vildum draga verkið nær okkur og unnum út frá nýrri þýðingu Hrafnhildar Hagalín. Þar rannsökuðum við eyðingarmátt hatursins og hvernig grimmdarverk getur verið sem viðstöðulaust viðbragð við ótta. Klassíkin fyrir mér á alltaf erindi, þess vegna er hún klassik. Í kjarna slíkra verka leynist sammannlegur breyskleiki og sama hverrsu siðmenntuð við teljum okkur vera þá má finna drullu.“

Arnar Dan, sem Rocky, ásamt Valdimar Guðmundssyni, sem fer með hlutverk Eddie. Mynd í einkaeigu.

Vill þroskast sem leikari og sögumaður

Hvar sérðu þig eftir fimm ár? „Vonandi enn að læra. Kristbjörg Kjeld svaraði þessari spurningu á þennan veg einu sinni og mér finnst það æðisleg sýn á lífið. Annars vonast ég til að fá að þroskast sem leikari og sögumaður og bæta fleiri verkfærum í boxið mitt. Ég sá nýverið Kona fer í stríð eftir Benna Erlings og ég átti ekki orð. Hann er mikil fyrirmynd og góður sögumaður sem notar leikhúsið, húmor og táknmál (symbolism) óspart í sinni kvikmyndagerð og hvetur fólk til að spyrja sig áleitinna spurning.“

Áttu þér einhverjar fyrirmyndir?„Já Thomas Vinterberg, ég er mjög hrifinn af skandinavískum realisma. Strindberg, Haruki Murakami og mamma til dæmis. Ég elska sögur af raunverulegu fólki. Mads Mikkelsen, Cillian Murphy og Arnmundur Ernst finnast mér frábærir leikarar. Þessa stundina er ég í bölvuðu hreyfiflæðisfáti í anda Ido Portal og elska það. Hann sagði t.d. It is not about what you what to learn but what the teacher wants to teach you. Ég elska að verða fyrir áhrifum frá fólki það er svo mikið spennandi í boði og því finnst mér þetta svo flott pæling, aðlögnunarhæfni og forvitni eru eiginleikar sem ég ætla að hafa nálægt mér.“