Einhver hætta er á því að fjöldi manns muni syngja afmælissönginn fyrir tónlistarmanninn Friðrik Dór Jónsson á stórtónleikunum Í síðasta skipti sem haldnir verða í Kaplakrika daginn áður en hann verður þrítugur. Þessi ljúfi, nýgifti Hafnfirðingur og mikli FH-ingur er ekki búinn að leggja míkrafóninn á hilluna en langar að láta þann draum rætast að búa um tíma á Ítalíu og sækja þar nám í innanhússhönnun. Við ræddum við kappann á Pallett.

Friðrik Dór segist vera dæmigerður Hafnfirðingur að því leyti að vera stoltur af því og einnig stoltur af heimabænum. Hann er upp alinn í Setberginu eftir smá stoppi í Stekkjarhvammi. „Ég flutti að heiman 22 ára til Reykjavíkur en náði fyrir 3 árum að plata Lísu [Hafliðadóttur, eiginkonuna] til að búa í Hafnarfirði. Ég reyni að vera sem mest hér og fara sem minnst annað að sækja þjónustu og slíkt. Þegar ég bjó í Reykjavík fór ég með dóttur mína Ásthildi hingað til að verja dögunum.“

Hinn eini sanni Pollagallakall stillti sér upp við Flensborgarhöfn. Mynd/Óli Már.

Tók stærsta sénsinn 9 ára

Áhugi á innanhússhönnun kviknaði þegar Friðrik Dór var 12 ára og horfði á Innlit útlit í sjónvarpinu með mömmu sinni og las Bo Bedre og Hús og hýbýli. „Ég hef alltaf verið að pæla í þessu síðan fyrir táningsaldur. Herbergið mitt var ekkert óvenjulegt en ég hafði skoðanir á því. Ég tók stærsta sénsinn 9 ára þegar ég fékk að mála herbergið mitt dökkblátt og eiturgrænt á móti. Á grænu veggjunum voru bláar línur og á bláu veggjunum voru grænar línur. Það var heilmikil pæling þar að baki. Ég myndi ekki mála svona í dag, a.m.k. ekki í þessum litum,“ segir Friðrik Dór og hlær. Hann segir nokkrar borgir á Ítalíu koma til greina varðandi nám en tekur þó fram að aðal atriðið sé þó að prófa að flytjast í burtu í einhvern tíma. „Margir átta sig á hvað Ísland er frábært þegar þeir flytja erlendis og um leið hvað aðrir staðir eru líka heillandi.“

Stóri bróðir Friðriks Dórs, Jón, í miklu stuði fyrir aftan hann við að steggja litla bróður í ágúst. Mynd/OBÞ

Bræðurnir í myndbandinu við annað tveggja þjóðhátíðarlaga sem þeir gáfu út á árinu.

Styrkara bræðrasamband

Tónlistarbransi Friðriks Dórs spannar 10 ár og hann segir að hann hafi tengst bróður sínum Jóni Jónssyni á dýpri og fallegri hátt eftir að sá síðarnefndi flutti aftur heim eftir dvöl í Ameríku. „Það er meira samband og samgangur og styrkara bræðrasamband. Við komum líka oft báðir fram saman og höfum samið nokkur lög í sameiningu, eins og Þjóðhátíðarlögin í ár. Þau eru ólík en urðu bæði jafn vinsæl, hvorugt stakk hitt af. Annað ljúft og hitt svona meiri Pollagallakall,“ segir Friðrik Dór. Hann hefur sótt fyrirmyndir sínar í ýmsar áttir, allt frá Lauren Hill, Bítlunum, Stones og Bowie yfir í Mínus og Land og syni. „Ég mun alltaf gera einhverja tónlist og hún getur orðið hvernig sem er. Popptónlist er með mörg spectrum og ég á eftir að kanna þau meira.“

Friðrik Dór á tónleikum Fiskidaga á Dalvík í ágúst 2017. Eins og sjá má er mikill munur á honum eftir að hann breytti um lífsstíl. Skjáskot úr myndbandinu á Youtube.

Breytti lífsstílnum fyrir 9 mánuðum

Margir hafa tekið eftir því að Friðrik Dór lítur afar vel út eftir að hann breytti um lífsstíl fyrir 9 mánuðum. Hverjar hafa áherslurnar verið? „Fyrir utan það að mæta í ræktina tók ég mataræðið í gegn. Kolvetnasnautt kom mér af stað í byrjun því það er gott að sjá árangur. Eftir það gengur þetta bara út á sjálfsaga og það sem maður veit en hefur hunsað, s.s. að borða minna og borða ekki eftir 8 á kvöldin. Ég var vanur að fara bara á kaffihús á morgnana og fá mér eitthvað kjaftæði. Góð byrjun á deginum þýðir góður dagur. Mikið kolvetni snemma þýðir bara þyngri dagur. Ég hef tekið þetta jafnt og þétt og líður miklu betur.“

Mynd sem Gassi tók vegna tónleikanna.

Ný safnplata

Talið berst að tónleikunum í Kaplakrika og þeirri tilfinningu að spila á heimavelli, í bókstaflegri merkingu. „Ég vona að það verði margir Hafnfirðingar á tónleikunum. Það hefur sýnt sig að þeir fylgja mér og ég hef upplifað það á bæði minni og stærri tónleikum um allt land. Þeir elta mig og styðja við bakið á mér. Það er frábært að hafa svona hliðhollan áhorfendaskara og mér þykir vænt um það,“ segir Friðrik Dór og bætir við að vegna þess að tónleikarnir verða mestmegnis standandi þá verði lögð meiri áhersla á tempó og minna tal og ballöður. „Svo verð ég rosa einlægur á milli. Þarna verður geggjað band, flottar útsetningar og góð blanda af efni. Ég vona að allir fari glaðir heim og skemmti sér vel. Ég er samhliða þessu líka að gefa út mína þriðju breiðskífu, þá fyrstu í 4 ár, með samansafni af því sem ég hef gefið út, svona aðallega fyrir mig að eiga sem safngrip heima í stofu. Ég vona að einhverjir vilji eiga hana líka.“

Hér er hlekkur á Facebook viðburð vegna fjölskyldutónleikanna.