Forgangsmál Samfylkingarinnar er að bæta velferð og kjör alls almennings. Sveitarstjórnir gegna alltaf stærra og mikilvægara hlutverki í samfélaginu, ekki síst í velferðarmálum. Það er rökrétt þar sem reynslan sýnir að því nær íbúum sem þjónustan er, því betri er hún. Full ástæða er því til þess að auka hlutdeild sveitarfélaganna í samneyslunni. Þjónusta við eldri bæjarbúa er dæmi um verkefni sem ætti að vera á hendi sveitarfélaganna. Í dag er heimaþjónustan verkefni sveitarfélaganna á meðan ábyrgðin á framkvæmd heimahjúkrunar er hjá ríkinu. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga má ekki vera ráðandi þáttur þegar þjónustan er veitt. Samþætting heimahjúkrunar og heimaþjónustu er forsenda þess að hægt sé að bjóða eldri borgurum heildstæða þjónustu sem snýst um þarfir notendanna.

Þrýstum á ríkið

Eitt stærsta baráttumál Samfylkinginnar í Hafnarfirði er að stórauka og efla heimaþjónustu. Öflug heimaþjónusta er forsenda þess að það verði raunverulegur valkostur fyri eldri bæjarbúa að búa lengur í heimahúsum. Ef fólk getur og vill búa heima með viðeigandi stuðningi þá á það vera sjálfsagt mál. En það er ekki nóg. Við viljum líka ná samþættingu við heimahjúkrunina. Til að ná því markmiði þá mun Samfylkingin í Hafnarfirði þrýsta á ríkisvaldið um að bæjarfélagið fái ábyrgð á framkvæmd heimahjúkrunar. Það er fullt tilefni til þess að endurskoða þessa verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þágu notenda þjónustunnar því kerfið á að þjóna fólkinu en ekki sjálfu sér.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Höf. skipar 5. sætið á lista Samfylkingarinnar