Nýverið var fagnað merkum áfanga í sögu Hafnarfjarðar þegar afhjúpuð var stytta af brautryðjandanum og athafnamanninum Jóhannesi J Reykdal, sem að öðrum ólöstuðum má telja einn merkasta son bæjarins, þó ekki hafi hann verið þar innfæddur. 

Styttan var gjöf til Hafnarfjarðarbæjar frá Reykdalsvirkjun og voru það Björn Ingi Sveinsson, verkfræðingur og formaður félagsins, og Jóhannes Einarsson, fv. skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði og dóttursonur Jóhannesar J Reykdal sem afhentu bænum gjöfina.  Sjálfseignarstofnunin Reykdalsvirkjun ses var sett á laggirnar um mitt ár 2008 gagngert með það að markmiði að halda á lofti nafni Jóhannesar J Reykdal.

Listakonan og myndhöggvarinn Ragnhildur Stefánsdóttir vann hugmynd að verkinu. Í samráði við listakonuna og Jón Ólaf Ólafsson arkitekt voru nokkrir staðir nálægt stíflunni skoðaðir. Nú er þessu verki lokið og situr styttan á stíflunni og horfir yfir Hamarskotslæk og Hörðuvelli, og til Hafnarfjarðar sem naut brautryðjandastarfs Jóhannesar J Reykdals um árabil.

Jóhannes J Reykdal fæddist að Vallarkoti í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu þann 18. janúar 1874.  Á Akureyri hóf hann trésmíðanám og fjórum árum síðar sigldi hann til Kaupmannahafnar til frekara trésmíðanáms.  Eftir þriggja ára nám þar flutti hann heim til Íslands með það í huga að setjast að norðan heiða.  Á leið sinni hitti hann þó unga konu, Þórunni Böðvarsdóttur, sem hann svo kvæntist og festi rætur sunnan heiða.

Fyrstu árin sinnti Jóhannes húsbyggingum en fljótlega leitaði hugurinn hærra, sem varð til þess að hann reisti verksmiðju við lækinn í Hafnarfirði, hans fyrsta stórvirki.  Jóhannes virkjaði lækinn til þess að knýja vélar verksmiðjunnar áfram.  Þetta dugði Jóhannesi þó ekki lengi því árið 1904, þá þrítugur að aldri, fór hann til Noregs og festi þar kaup á rafal og með aðstoð íslensks raf-fræðings, Halldórs Guðmundssonar, setti Jóhannes rafalinn upp.  Þann 12. desember 1904 urðu þáttaskil í sögu þjóðarinnar með því að virkjun Jóhannesar neðst í læknum tók til starfa og ljós voru kveikt í 15 húsum í Hafnarfirði, auk trésmiðjunnar og fjögurra götuljósa.  Með þessum atburði var rafvæðing Íslands hafin.

Mikil eftirspurn var af rafmagni virkjunarinnar og fór Jóhannes því aftur af stað, fékk vatnsréttindi ofar í læknum og reisti á eigin spýtur nýja rafstöð á Hörðuvöllum.  Sú rafstöð tók til starfa haustið 1906 og var að afli 37 kW, sem fullnægði allri eftirspurn eftir rafmagni í Hafnarfirði.  Sú virkjun var endurbyggð á árunum 2007 – 2007 og kallast nú Reykdalsvirkjun.  Var hún fyrsta sjálfstæða rafstöðin á Íslandi.  Ellefu árum síðar reis þriðja rafstöð Jóhannesar nú enn ofar í læknum.

 

Myndir: Hafnarfjarðarbær og Björn Ingi Sveinsson.