Fræðsluráð samþykkti í sumar að hefja að nýju í áföngum gjaldfrjálsan frístundaakstur fyrir sex og sjö ára börn í Hafnarfirði. Tillögurnar að þessu verkefni koma frá starfshópi um frístundaakstur þar sem sátu fulltrúar frá Bjartri framtíð, Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Í vinnu starfshópsins voru ýmsar útfærslur skoðaðar og var samrómur um að byrja með frístundaaksturinn í smáum skrefum og bæta hægt og rólega við.

Reynslan hér í Hafnarfirði hefur sýnt okkur að það er ekki endilega betra að byrja flókið og stórt, það gekk ekki upp síðast. Til þess að gæta sem mests jafnræðis var ákveðið að bjóða stærstu fjölgreinafélögunum til samtals við starfshópinn. Tóku þau félög vel undir þessa vinnu og sýndu áhuga á þátttöku. Starfshópurinn skilaði sinni vinnu í vor þar sem sviðstjóra Fræðslusviðs var falið að vinna áfram með verkefnið, niðurstaðan var sú að byrja aka 6-7 ára börnum úr grunnskólum bæjarins á þrjá staði; Kaplakrika, Ásvelli og Haukahraun. Með þessu fengist hámarksnýting á þjónustunni.

Framkvæmdinni er þannig háttað að ekið verður með börnin á æfingar hjá Fimleikafélaginu Björk, FH og Haukum. Starfsmenn frá frístundaheimilum munu fylgja börnunum í bílinn og að æfingasvæði. Foreldrar sækja svo börnin sín á æfingar.

Markmiðið með þessu er að stytta vinnudag barnanna. Einnig er verið að auka nýtingu íþróttamannvirkja og koma til móts við foreldra með akstur. Svo ekki sé minnst á umhverfisþáttinn, að draga úr umferð á álagstímum.

Þegar reynsla verður komin á frístundaaksturinn verður vonandi hægt að fjölga ferðum, bæta við aldurshópum inn í aksturinn, fara á fleiri staði og í ólíkar frístundir, eins og tónlist, skáta eða annað sem flokkast undir frí- eða tómstundir. Ætlunin með því að taka þetta verkefni í skrefum er aðeins hagsýni, að vanda til verka og gera þetta frábæra verkefni vel svo það nái að vaxa og dafna fyrir börnin okkar hér í Hafnarfirði.

 

Karólína Helga Símonardóttir

Formaður Íþrótta- og tómstundaráð Hafnarfjarðar