Ég er foreldri og á tvær dætur í sínum hvorum skólanum í bænum. Önnur er tindrandi táningur og hin stálpað stelpuskott. Ég gerði mér fljótt grein fyrir því þegar ég var orðin tveggja dætra móðir, með fimm ára millibili, að ég myndi í uppeldinu annars vegar takast á við vinkvennadrama á vissum aldri og hins vegar einhvers konar ástarsorgir síðar.

Þessir tveir þættir hafa mikil áhrif á sjálfsmynd stúlkna og ungra kvenna og þær læra að setja mörk, virða mörk og standa með sér. Það að vera hafnað á einhvern hátt, í eitt skipti eða ítrekað, hefur skiljanlega áhrif á líðan manneskju og á viðkvæmum aldri, eða á viðkvæmu skeiði í lífinu, getur viðkomandi farið að efast um eigið ágæti.

Töluverð umræða hefur verið um tælingar (líka meintar) og sem foreldri ber ég mikla ábyrgð á því hvernig dætur mínar upplifa viðbrögð mín við slíkri umræðu og hvernig ég kenni þeim að tækla slíkar aðstæður, ef þær skyldu koma upp.

Í blaði vikunnar gefur sálfræðingurinn Ólafur Örn Bragason okkur foreldrum góð ráð sem ég hvet alla foreldra til að lesa og tileinka sér. Okkur er eðlislægt að ímynda okkur það versta ef ekki næst í börnin eða þau koma seint heim. Því skiptir máli að þjálfa börnin, á yfirvegaðan hátt, í að láta okkur alltaf vita hvar þau eru eða svara í símann þegar við reynum að hafa samband. Ekki til þess að vekja hjá þeim ótta, heldur byggja upp gagnkvæmt og þægilegt traust.

Fyrst og fremst er þó hlutverk mitt sem foreldri að hjálpa dætrum mínum að efla sjálfsmynd sína þannig að þær átti sig á hversu miklum innri styrk þær búa yfir til að láta ekki einhverja illa gerða hlandhausa og hlandflygsur (orðaforði föður míns) koma sér úr jafnvægi. Segja stopp – og segja frá.