Heimir Sigurðsson flutti frá Breiðholti til Hafnarfjarðar, nánar tiltekið í Skipalón, fyrir tveimur árum. Hann er hættur að vinna og hefur á þessum tveimur árum skoðað nýja heimabæinn vel. Heimi finnst margt gott gert hér í bæ en mikið vanti upp á snyrtileika, sérstaklega við fyrirtæki og opinbera staði. Hann langar að vekja athygli á þessu og er til í samtal við bæjaryfirvöld um hvað sé hægt að gera betur og jafnvel nýta krafta hans, þekkingu og reynslu.

Þetta er alls ekki til fyrirmyndar.

Svona er staðan á gangstéttum víða um bæinn.

Heimir hefur alla tíð skoðað gaumgæfilega það sem er í kringum hann og segist vera jákvæður á það sem hægt sé að gera betur. Hafnarfjörður geti t.a.m. staðið sig miklu betur í tengslum við snyrtleika, frágang og viðhald á lóðum bæjarins. „Ég varð bara fyrir áfalli þegar ég fór t.d. í Suðurbæjarlaug, en þar er umhverfið afar slæmt og í raun ekki bjóðandi þeim sem þar fara um. Sama má segja um svæðið fyrir framan Ásvallalaug. Þar er breiða af ónýtu hnekki og njóla og undirvinna þar ber víða merki sparnaðar og kemur illa út. Brotnar hellur liggja bara þar sem þær eiga ekki að vera, o.s.frv.,“ segir Heimir, sem hefur gert töluvert af því að taka myndir af því sem hann sér og fylgja með í þessari umfjöllun.

Þarna gæti skapast slysahætta.

Undirvinna ber víða merki sparnaðar og kemur illa út.

Hægt að gera svo margt á meðan ekki er frost

„Þegar lagðar eru þökur þurfa þær að ná 15-20 cm yfir svæðið í kring og eru svo þjappaðar niður svo að grasið þrífist. Annars verður þetta að hólum þegar jarðvegurinn sígur og getur orðið hættulegt umferðar við kantsteina. Viðhaldið er bara ekki til staðar og svo bara líða árin og allt fer í óefni. Almenningur, ríki og sveitarfélög draga lappirnar í þessu,“ segir Heimir, alveg steinhissa og bætir við að á tímabili hafi honum dottið í hug að stofna fyrirtæki þar sem hann gæti tekið fyrir og eftir myndir og lagfært svona hluti. Hann hefur víðtæka reynslu, frá 10 ára aldri, af því að taka til hendinni, m.a. í byggingavinnu, rafvirkjun, í sveitastörfum, verksmiðjurekstri og sem húsvörður. Þegar húsin í Hlíðarbyggð og Brekkubyggð í Garðabæ voru byggð var Hemir hluthafi og verkstjóri hjá Íbúðavali. „Ég hef alltaf haft áhuga á gróðri og er í skógrækt og veit að unglingavinnan getur ekki sinnt svona viðhaldsvinnu rétt yfir sumarið. Það er hægt að gera þetta yfir allt árið á meðan ekki er frost.“

 

Brotið ljós þarfnast lagfæringar.

Tekið vinstra megin við komu að Suðurbæjarlaug.

Vill efna til stórátaks
Draumur Heimis er að allir sem áhuga hafi leggist á eitt við að byrja á því að taka eftir því sem gera þarf og hætta að vera samdauna. „Gera svo eitthvað í því í framhaldinu. Til að starta þessu þarf að hafa 2-3 teymi þar sem hópstjóri eða verkstjóri eru með bíl og kerru. Það þarf ekki mikið af tækjum. Arfaskafa gerir t.d. ótrúlega mikið ef farið er með hana í kverkarnar og grasið rifið burt. Það eru heilu sjálfgrónu 5-6 ára trén upp við húsveggi á göngustígum og víðar. Bæjaryfirvöld þurfa að koma að þessu og byrja á opinberu stöðunum. Taka svo saman höndum og efna til stórátaks í að hvetja bæjarbúa til að gera bæinn fallegri. Það geta allir gert eitthvað og það er ótrúlega margt hægt að gera á örfáum árum. Smáatriðin eru nefnilega oft stóru atriðin,“ segir Heimir.

Myndir teknar við undirgöngin. Allt í óreiðu og sóðaskap til margra ára. Margt hægt að laga með litlum tilkostnaði.


Mynd af Heimi: OBÞ
Aðrar myndir: Heimir sjálfur.