Fjórir voru heiðraðir á Sjómannadaginn fyrir vel unnin störf í tímans rás. Tveir þeirra eru enn við störf. Hér eru nöfnin og umsagnirnar: 

 

Gunnar Guðmundsson, sjómaður

Gunnar Guðmundsson, sjómaður fæddist þann 11. Október 1950 á Ísafirði.  Foreldrar hans voru þau Guðmundur Sigurðsson sjómaður og Mildrid Sigurðsson.

Gunnar ólst upp á Ísafirði til 24 ára aldurs en fluttist þá til Hafnarfjarðar.   Hann byrjað að stunda sjómennsku 16 ára gamall fyrir vestan á hinum ýmsu bátum og sjálfur var hann með eigin trillu-útgerð í 27 ár.

Síðasta áratuginn hefur Gunnar starfað við beitningu og verið á sjó hjá Hinriki Kristjánssyni og hann er enn að sækja sjóinn.

Gunnar er kvæntur Jenný Guðmundsdóttur og eiga þau 5 börn og 9  barnabörn.

 

Páll Jónsson Egilsson,  yfirvélstjóri

Páll J. Egilsson yfirvélstjóri, fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð þann 7. September árið 1950.  Foreldrar hans voru  þau Egill Halldórsson skipstjóri og Guðmunda Þóranna Pálsdóttir húsmóðir.

Páll byrjaði á sjó með förður sínum strax eftir fermingu og var með honum í tvö sumur á skaki.  Síðan lá leiðin á vertíðarbátana Framnes og Sléttanes.  Páll fór í vélskólann veturinn 1970 og eftir að hafa lokið námi árið 1974 lá leiðin á skuttogarana Framnes, Maí og síðar frystitogarann Ými.

Páll fór á varðskipin árið 1999 og er í dag yfirvélstjóri á varðskipinu Tý.

Eiginkona Páls var Auður Guðmundsdóttir sem lést þann 19. Júlí 2016.  Þau áttu 3 börn og 2 barnabörn.  Sambýliskona Páls er Anna Sigurjónsdóttir, hárgreiðslumeistari.

 

Guðmundur Hjörleifsson, matreiðslumeistari

Guðmundur Hjörleifsson, matreiðslumeistari, er fæddur í Hafnarfirði þann 20. Nóvember árið 1948.   Foreldrar hans voru þau Hjörleifur Elíasson bóksali og Guðmunda Guðbjartsdóttir húsmóðir.

Guðmundur byrjaði 14 ára gamall til sjós, sem vélamessi hjá Eimskip á Goðafossi.  Síðar lá leiðin á Hótel Sögu þar sem Guðmundur lærði matreiðslu.

Árið 1973 fór hann aftur á sjóinn og hefur starfaði þar nær óslitið í liðlega 4 áratugi til ársins 2014, lengst af á Sjóla og Málmey frá Sauðarkróki.  Skipsfélagar hans á Málmey kvöddu sinn kokk með góðum kveðjum þar sem sagði ma.:

Boðar starfslok brytinn snjall

Berst þér hól frá okkur.

Ekki meira eldhúsbrall

Iðkar Gummi kokkur.

Eiginkona Guðmundar er Jenný Þórisdóttir.  Þau eiga 3 börn og 5 barnabörn.

 

Gylfi Kjartansson, skipstjóri

Gylfi Kjartansson, skipstjóri, fæddist á Suðurgötu 10 hér í Hafnarfirði, þann 6. október 1951.  Foreldrar hans voru þau Kjartan Eiðsson og Soffía Hóseadóttir.

Gylfi byrjaði til sjós 15 ára gamall á vélbátnum Mími frá  Hafnarfirði.  Næstu ár var hann á vertíðarbátunum Ásæli Sigurðssyni og Arnarnesi.  Eftir það fór Gylfi á ýmsa togara, m.a. síðutogarana Neptúnus og Rán og síðar skúttogarana Maí og Júní héðan frá Hafnarfirði.

Gylfi fór í Stýrimannaskólann og útskrifaðist þana árið 1975.  Eftir það hefur hann starfað sem stýrimaður og skipstjóri.  Hann var stýrimaður á Ráninni, Bjarna Herjólfssyni og síðar afleysingaskipstjóri á Maí, Víði og Sjóla.  Hann fór á togarann Gnúp GK 11 árið 1996, fyrstu tvö árin sem stýrimaður og afleysingaskipstjóri en hefur verið þar skipstjóri síðustu 20 árin og er þar enn starfandi.

Gylfi er kvæntur Guðrúnu Brynjólfsdóttur og eiga þau saman 6 börn og 5 barnabörn.