Næstkomandi laugardag göngum við til sveitarstjórnarkosninga. Þá gefst bæjarbúum kostur á að kjósa fulltrúa til að sitja í bæjarstjórn næstu fjögur ár. Kosningarétturinn er dýrmætur og hann eigum við alltaf að nýta. Góð kona sagði við mig um daginn. „Að kjósa veitir mér rétt til að kvarta.“ Mér fannst þetta ágætt, því ef við nýtum ekki kosningaréttinn er í raun lítið sem við getum sagt.

Samfylkingin í Hafnarfirði hefur sett þrjá málaflokka sérstaklega á oddinn í þessum kosningum; húsnæðismál, leikskólamál og málefni eldri borgara.

Aukum framboð á húsnæði

Við leggjum áherslu á að allir geti búið í öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Tryggja þarf nægt framboð af lóðum og bjóða upp á fjölbreytta valkosti á húsnæðismarkaði. Hafnarfjörður hefur dregist aftur úr hvað varðar uppbyggingu á íbúðarhúsnæði og því þarf að breyta.

Stórsókn í leikskólamálum

Brýnt er að blása til stórsóknar í leikskólamálum. Byggja þarf fleiri leikskóla, ungbarnadeildir og sérhæfða ungbarnaleikskóla samhliða því að bæta starfsaðstæður starfsfólks í leikskólum. Mikilvægasta verkefnið er að hefja strax byggingu leikskóla í Suðurbæ en við ætlum einnig að opna Kató aftur sem ungbarnaleikskóla.

Mætum ólíkum þörfum eldri borgara

Mikilvægt er að mæta ólíkum þörfum ört stækkandi hópi eldri borgara. Fjölga þarf hjúkrunarrýmum samhliða því að stórefla heimaþjónustu og tryggja að það verði raunverulegur valkostur að fólk geti búið sem lengst heima.

Samfylkingin er flokkur jafnaðarfólks og okkar megin hugsjón er að allir hafi jöfn tækifæri í lífinu. Við viljum setja fólkið í forgang. Settu X við S á laugardaginn ef þú vilt það líka.

 

Adda María Jóhannsdóttir

Höfundur skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar