Páll Eyjólfsson. Mynd í einkaeigu.

Framundan er tónlistar- og bæjarhátíðin Hjarta Hafnarfjarðar, sem haldin er í annað sinn frá miðvikudegi og fram á miðnætti á laugardagskvöld. Við ræddum við Páll Eyjólfsson, aðalskipuleggjanda hátíðarinnar, en hún verður með töluvert ólíku sniði en í fyrra. 

„Í svona er mikilvægt að hugsa aðeins til framtíðar. Hátíðin í ár er afraksturinn af því hvernig við byrjuðum á þessu og lærðum af skemmtilegum mistökum. Tilgangurinn er, þegar sett hefur verið upp grind að hátíð sem þessari, að sem flestir geti notið og tekið þátt. Við erum búin að færa okkur úr portinu bakatil, sem var alls ekki nógu stórt, og þangað sem andlit Bæjarbíós er Strandgötumegin. Þar verður útisvæðið og með þeirri breytingu urðu til tækifæri til að tengja inn í þessa hátíð fyrirtæki þar megin,“ segir Páll. Bóksafnið verður t.a.m. með viðburð fyrir börn á laugardeginum og fjölskylduvænt Lifandi Thorsplan verður á sama tíma.

Velvilji fyrir samvinnu

Páll segist finna fyrir velvilja í miðbænum fyrir svona samvinnuverkefnum og hann er afar þakklátur bæjaryfirvöldum fyrir þann velvilja sem sýndur hefur verið með að stækka hátíðina. „Það væri erfitt án stuðnings þeirra að horfa fram á vegin með ný tækifæri. Við viljum stækka Bæjarbíó og búa til fleiri tónleika og láta Hjarta Hafnarfjarðar þróast í risastóra bæjarhátíð eftir nokkur ár sem næði eftir allri Strandgötunni og jafnvel út á Víðistaðatún eða hafnarsvæðið.“ Hjarta Hafnarfjarðar byrjar á miðvikudag með myndlistarsýningu kl. 17 þar sem tónlistarmaðurinn Hermann Ingi Hermannsson sýnir 20 myndir þar sem Hafnarfjarðarvitinn kemur við sögu. „Við viljum líka styðja undir aðrar listir og tengja saman listgreinar. Þetta útisvæði er byggt þannig upp að fólk geti komið t.d. á Hafnfirðingakvöld á fimmtudagskvölinu, keypt mat á básum á vegum Tilverunnar, Vonar og Krydds. Tónleikum Björgvins Halldórssonar verður þá einnig varpað á tjald á útisvæðinu. Svo er hægt að fylgjast með Papaballi á föstudeginum og BUFF balli á laugardeginum á sama tjaldi.“

Áferðin skiptir öllu máli

Spurður um hvort það sé ekki heilmikið batterí að halda utan um svona hátíð til að allt fari vel segir Páll að hann hafi, í samstarfi með öðrum, séð um Októberfest SHÍ í Vatnsmýrinni í 10 ár. „Það er miklu stærri viðburður en þetta og ég tek allt úr því, s.s. öryggisgæslu, Íslenska gámafélagið kemur og hreinsar salernin og svæðið, fólk á vakt sem skoðar að allt sé í lagi og að hátíðin hættir líka á tilsettum tíma. Áferðin skiptir líka öllu máli. Það þarf að velja tónlistarfólk út frá markhópnum. Einnig þarf að kappkosta að gæðin séu góð, hvort sem um er að ræða tónlistarfólk, þjónustu, öryggisgæslu eða veitingar. Reynslan kennir manni alltaf best og það að standa við það sem maður segir. Svo vonumst við til að sjá sem flesta hjá okkur í Hjarta Hafnarfjarðar.“

Uppselt á viðburðina í Bæjarbíói á fimmtudag, föstudag og laugardag. Frítt verður á útisvæðið á fimmtudeginum og á undan Papaballinu á föstudeginum verður Bjartmar Guðlaugsson í útitjaldinu, Hjálmar á undan BUFF á laugardeginum og kostar 2990 kr á útisvæðið á miði.is. Svo lýkur öllu á miðnætti.