67 athugasemdir vegna skipulagsbreytinga við Fornubúðir 5 höfðu borist skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar áður en athugasemdafrestur rann út 4. desember síðastliðinn. Fundur hjá ráðinu svo svo haldinn tveimur dögum síðar að Norðurhellu 2, þar sem breyting á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 og deiliskipulagi fyrir Fornubúðir 5 var lögð fram á ný. Sigurjón Ingvason, íbúi í Hafnarfirði, er í hópi þeirra sem hafa vakið athygli á þróun í skipulagsmálum Hafnarfjarðar. Hann segir augljóst að umfjöllun um þessar athugasemdir hafi bara verið til málamynda og aldrei staðið til að taka mark á þeim.

„Ég tilheyri hópi sem hefur verið að vekja athygli á varasamri þróun í skipulagsmálum Hafnarfjarðar og hvetja til þess að fólk segi sína skoðun á byggingaráformum við höfnina. Á árunum 2014-2016 var í gangi samráðsverkefni um skipulag Flensborgarhafnar og nágrennis og afrakstur þess verkefnis var skipulagslýsing sem endurspeglaði vilja bæjarbúa um lágreista byggð á hafnarsvæðinu sem yrði í sátt við aðliggjandi umhverfi. Sú stefna sem mótuð var í þessari skipulagslýsingu er augljóslega ekki þóknanleg fjárfestum á svæðinu sem vilja hámarka sinn gróða með sem mestu byggingarmagni.“

Úr fundargerð skipulags- og byggingarráðs frá 4. desember sl.:

„Fulltrúar Bæjarlistans, Miðflokksins, Samfylkingarinnar og Viðreisnar óska eftir frestun á lið 1 málsnúmer 1808180. Fornubúðir 5, skipulagsbreyting vegna þess að fylgiskjal með athugasemdum íbúa við aðal- og deiluskipulagasbreytingu lá ekki fyrir fyrr en sama dag og fundurinn fer fram. Almenna reglan í samþykktum bæjarins er að dagskrá funda skuli liggja fyrir með amk. sólarhringsfyrirvara, en í því felst að nauðsynleg fundargögn fylgi með fundarboði. Athugsemdir íbúa við breytingarnar eru mikilvægt innlegg í umræðu þessa máls og ráðinu ber að kynna sér vel þau sjónarmið sem þar koma fram. Tíminn sem fulltrúar í ráðinu hafa haft til þess að kynna sér þær fjölmargar athugasemdir sem bárust frá íbúunum er of skammur og því er farið fram á frestun á þessum lið.

Fulltrúar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og óháðra bóka:
Engar forsendur eru fyrir frestun á þessum tímapunkti. Engar formlegar ákvarðanir verða teknar á fundi þessum. Nú mun skipulagsfulltrúi taka saman svör við framkomnum athugasemdum og leggja fram á næsta fundi ráðsins sem fram fer á mánudaginn. Þá mun ráðið taka formlega afstöðu til málsins, til samþykktar eða synjunar. “

Teikning af byggingunni sem um ræðir við Fornubúðir 5.

Sigurjón segir að þegar áform um byggingu að Fornubúðum 5 hafi verið kynnt hafi komið í ljós að það sé í forgangi hjá bæjarstjórn að þóknast fjárfestum, en ekki að standa við þau loforð sem gefin hafi verið í fyrrnefndri skipulagslýsingu. „Allt í einu var búið að samþykkja 22 metra háa og 185 metra langa byggingu á svæði þar sem átti að vera lágreist byggð. Þessi framkvæmd var kynnt undir þeim merkjum að þetta væri nauðsynlegt til þess að fá Hafrannsóknarstofnun til bæjarins. Sannleikurinn er hins vegar sá að Hafró þarf aðeins um þriðjung af þessu byggingarmagni. Í framhaldi af þessu samþykkti meirihluti bæjarstjórnar að fella úr gildi skipulagslýsinguna frá 2016 þrátt fyrir að blekið væri varla þornað á henni,“ segir Sigurjón.

Sigurjón segir að hópurinn telji að með þessari stóru byggingu við Fornubúðir 5 sé verið að setja hættulegt fordæmi. „Við höfum séð það víða að sveitarstjórnir hafa tilhneigingu til að þess að vera hallar undir fjárfesta frekar en almenning og hafa í mörgum tilfellum fært fjárfestum sjávarútsýni á silfurfati á kostnað annarra íbúa sveitarfélaga. Þannig er oft heimilað ótrúlega mikið byggingarmagn við ströndina og sjávarsýn annarra íbúa þar með skert. Þar má t.d. nefna Skúlagötuna í Reykjavík og Sjálandshverfið í Garðabæ. Viljum við að miðbær Hafnarfjarðar líti út eins og Skúlagatan eftir nokkur ár eða viljum við halda í sérstæða og fallega bæjarmynd? Það kom fram á íbúafundi fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar að til eru hugmyndateikningar af blokkum á landfyllingu meðfram strandstígnum í Hafnarfirði og eflaust munu menn knýja á um að gera þau áform að veruleika á einhverjum tímapunkti ef enginn spyrnir við fótum“.

Nýlega hafi verið upplýst á kynningarfundi að ekki eigi að setja skipulag við Flensborgarhöfn í fastar skorður á næstunni, heldur eigi að gera svokallað rammaskipulag sem hefur enga lagalega þýðingu. „Það gefur einstökum lóðarhöfum færi á því að gera ýtrustu kröfur um byggingarmagn og munu þeir þá eflaust vísa til fordæmisins við Fornubúðir 5. Ég tel að það sé lágmarkskrafa að bærinn setji þegar í stað bindandi ákvæði um hæð húsa og byggingarmagn við ströndina, en láti það ekki ráðast af kröfum lóðarhafa hverju sinni.“

Smábátahöfnin við Fornubúðir. Mynd/FP

Deiliskipulag fyrir Fornubúðir 5 hafi verið kært eftir að það var fyrst samþykkt árið 2017 og það var fellt úr gildi af úrskurðarnefnd. Sigurjón segir að lóðarhafi og bæjarstjórn hafi þó ekki verið af baki dottin og hafið strax undirbúning að því að keyra skipulagið í gegn að nýju.

„Skipulagið var auglýst aftur og í þetta sinn bárust 67 athugasemdir frá íbúum. Það er fáheyrt eða jafnvel einsdæmi að svo margar athugasemdir berist. Lóðarhafinn er orðinn mjög óþolinmóður og meirihluti bæjarstjórnar vill allt fyrir hann gera. Þannig samþykkti byggingarfulltrúi fyrir nokkrum vikum að gefa út málamyndaleyfi fyrir „gámastæði“ á lóðinni, en þetta gámastæði er auðvitað ekkert annað en gólfplatan í húsinu sem ekki er heimild fyrir á þessum tímapunkti. Síðan var ákveðið að keyra málið í gegnum skipulagsráð og bæjarstjórn. Málið var tekið fyrir á fundi skipulagsráðs sl. fimmtudag og þar var skipulagsfulltrúa falið að taka saman svör við framkomnum athugasemdum fyrir næsta fund sem haldinn var strax á mánudagsmorgun. Skipulagsfulltrúi hafði þannig einn dag til þess að fara yfir 67 athugasemdir og svara þeim. Ég hef sjálfur unnið við skipulagmál og veit það alveg að þú afgreiðir ekki slíkt magn athugasemda á einum degi.“

Málið var afgreitt frá skipulagsráði á mánudegi og er á dagskrá bæjarstjórnar á miðvikudag.

Sigurjón segir augljóst að umfjöllun um þessar athugasemdir hafi bara verið til málamynda og aldrei staðið til að taka nokkuð mark á þeim. „En það er svo sem ekkert einsdæmi í vinnubrögðum bæjarins. Hvaða tíma höfðu fulltrúar í skipulagsráði til kynna sér þessar athugasemdir og tillögu skipulagsfulltrúa um að hunsa þær? Örugglega ekki nægan til að taka upplýsta og vitræna ákvörðun. Það er alveg ljóst að með svona vinnubrögðum er verið að sýna afstöðu íbúa lítilsvirðingu og maður setur spurningamerki við hvort svona afgreiðsla stenst kröfur skipulagslaga og stjórnsýslulaga. Þó að þetta mál renni í gegn hjá bæjarstjórn þá erum við ekki af baki dottin og munum halda baráttunni áfram,“ segir Sigurjón.