Í tilefni af Alheimshreinsunardeginum 15. september nk. hefur Björg Fríður Freyja, íbúi við Kirkjuveg hér í bæ, efnt við til hóphittings til að hreinsa og fegra umhverfi og náttúru Hafnarfjarðar og koma í leið í veg fyrir að ruslið fari á haf út eða endi í fuglsmaga í náttúrunni, eins og segir í kynningartexta viðburðarins á Facebook. 

„Ég tók eftir því að Hafnarfjarðarbær hafði ekkert planað neitt fyrir þennan dag, ólíkt nágrannasveitarfelögum, svo að ég ákvað að stofna bara til viðburðar,“ segir Björg Fríður, en hún er annálaður náttúru- og umhverfisverndarsinni og týnt rusl í umhverfi sínu árum saman. „Reykjavíkurborg er til dæmis að taka virkan þátt með gáma hér og þar og taka þátt i boomerang fjölnota pokunum þar sem þeir styrkja plastpokalausa verkefnið og fleira. Kópavogur tekur líka þátt í því og svo er sveitaefélag Ölfuss með hreinsunarviðburð. Þetta er það sem ég hef bara séð svona á samfélagsmiðlum.“

Björg Fríður Freyja, ásamt Ösku og Kolu, sem slást gjarnan í för með henni þegar hún fegrar umhverfi sitt. Björg Fríður var meðal nokkurra eldhuga í unhverfismálum sem fengu viðurkenningu fyrir sitt framlag fyrr á þessu ári. Mynd/Reykjavíkurborg.

Björg Fríður hringdi á bæjarskrifstofu Hafnarfjarðar og þar var brugðist vel við og verður allur afrakstur dagsins sóttur á þeirra vegum. Hún væri þó til í að sjá fleiri fyrirtæki í bænum taka þátt. „Helluhraunið hjá Aðalskoðun og nágrenni er t.d. allt morandi í rusli frá fyrirtækjum og sjoppu i nágrenni. Margar skemmtilegar hendur vinna skemmtilegt verk. Já og álfarnir vilja nú hafa hreint hjá ser. Þeir flýja rusl og hávaða!“ segir Björg Fríður í gamansömum tón og hvetur alla til að vera með og deila viðburðinum sem finna má á Facebook.
Forsíðumynd í einkaeigu og tekin af Björgu Fríðu í garði sínum við Kirkjuveg 13.