Margar og mismunandir raddir heyrast þegar rætt er um hvað eigi að taka við að fæðingarorlofi loknu. Fæðingarorlof fyrir mörg börn er 9 mánuðir en 6 mánuðir fyrir önnur. Yfirleitt ræðum við um vanda foreldranna, hvað þeir eigi að gera og að þetta setji þá í slæma stöðu. Ég spyr, hvað um börnin? Vissulega væri réttast að lengja fæðingarorlofið í a.m.k. 12 mánuði og tryggja að hvert barn fengi að lágmarki þann tíma, og að loknu orlofi fengi hvert barn úthlutað öruggu leikskólaplássi. Til þess að það geti orðið að veruleika þarf að staldra við og rýna í það hvers konar leikskóli er hentugur fyrir mjög ung börn.

Hvernig gerum við góða ungbarnaleikskóla?

Ung börn sem byrja í leikskóla þurfa að fá hæfasta starfsfólkið, þau þurfa stöðugleika og þau þurfa rými sem er hannað sérstaklega fyrir þau. Í því umhverfi sem einkennir leikskóla í dag getur reynst erfitt að tryggja ákjósanlegt námsumhverfi fyrir mjög ung börn þar sem óstöðugleiki í starfsmannamálum hefur áhrif á starfs- og námsumhverfið.  Samfylkingin í Hafnarfirði setur það markmið að bjóða börnum leikskólapláss frá 12 mánaða aldri. Til að það geti orðið að veruleika verður að vinna markvisst að uppbyggingu leikskólanna innan frá og huga að því að starfsumhverfið sé gott fyrir bæði börn og fullorðna.

Góður leikskóli og gott námsumhverfi væri það besta sem börnum væri boðið upp á að fæðingarorlofi loknu.

 

Svava Björg Mörk

Höfundur er leikskólastjóri og doktorsnemi og skipar 14. sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor.