Með hækkandi sól fer bæjarbúum að kítla í útivistartærnar. Við í Hafnarfirði búum svo vel að eiga eitt fallegasta og fjölbreytilegasta útivistarsvæði á landinu og þótt víðar væri leitað.

Í upplandi Hafnarfjarðar erum við með vötn, fjöll, ósnert hraun, á, læki og skóga. Enda nýtur svæðið sívaxandi vinsælda bæði hjá bæjarbúum og gestum hvaðan af frá.

Þessum auknu vinsældum fylgir hinsvegar álag á svæðið og því er mikilvægt að skipulag þess og aðgengi sé til fyrirmynda til að koma í veg fyrir rask og skemmdir. Þess má geta, í þessu samhengi, að Helgafell er í harðri samkeppni við Esjuna sem fjölfarnasta fjall/fell landsins. Því þarf að merkja göngustíga vel og jafnvel gera afmarkaðar reiðhjóla- og hestaleiðir þar sem það fer ekki vel saman að stýra umferð ólíkra ferðamáta á sömu leiðir og stíga.

Eins þarf að bjóða upp á leiðir sem henta vel fólki með takmarkaða hreyfigetu, s.s. fötluðum og öldruðum. Þar má benda á gönguleiðina hringinn í kringum Hvaleyrarvatn sem góðan kost. Þann stíg mætti gjarnan malbika, setja upp lýsingar og fjölga bekkjum svo leiðinn sé greið og nýtist stærri hluta ársins. Reyndar finnst mér að það megi nýta þá náttúruperlu sem Hvarleyrarvatn og nágrenni þess er mikið betur. Með því að bæta gönguleiðina og setja upp lýsingu við vatnið sé ég fyrir mér að þarna geti framtíðarsvæði Jólaþorpsins verið svo eitthvað sé nefnt.

Með þessu væri hægt að auka á fjölbreytileika Upplandsins sem fyrirmyndar útivistarsvæði þar sem hópar með ólíkar þarfir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

 

Sverrir Jörstad Sverrisson

Höfundur er aðstoðarleikskólastjóri og skipar 11. sæti á lista Samfylkingarinnar