Kryddhúsið opnaði í október 2015 og er rekið af eigendunum Ólöfu Einarsdóttur og Omry Avraham. Þau fluttu í vor að Flatahrauni 5B, bak við Ölhús Hafnarfjarðar. Farðarpósturinn kíkti í heimsókn og skoðaði úrvalið.

72 tegundir í stórverslunum

„Við erum ennþá lítil á markaði en höfum verið að stíga varlega stór skref. Kryddmarkaðurinn á Íslandi hefur verið frekar einsleitur og það hefur verið gaman að koma með eitthvað nýtt og ferskt inn. Kryddin okkar eru héðan og þaðan og við þreifum okkur áfram með blöndur. Við bættum við kryddum í flóruna sem við höfum trú á að gæti fallið í góðan jarðveg,“ segir Ólöf og bætir við að þau vilji auka aðgengi fólks að vörunum sem þau selja. „Því höfum við búðina opna á miðvikudögum og fmmtudögum og hér er m.a. hægt að kaupa krydd eftir vigt og ýmsar girnilegar gjafapakkningar og efni í jólaglögg. Svo eru 72 kryddtegundir frá okkur seldar í Fjarðarkaupum, Hagkaupum og Nóatúni. Og eitthvað aðeins minna úrval í Melabúðinni. Svo erum við að sjálfsögðu líka með veffverslun okkar á www.kryddhus.is.

Omry er alinn upp við Miðausturlandamatarmenningu og þar af leiðandi við ríka kryddhefð. Ólöf er menntuð í náttúrulækningum og þekkir inn á lækningarjurtir og eiginleika þeirra. Í Krydd & Tehúsinu sameinast bakgrunnur Ólafar og Omry, ásamt ástríðu fyrir góðum og hollum mat. Þar er boðið upp á ferska, ljúffenga, náttúrulega og aukaefnalausa vöru og mikið er lagt upp úr umhverfisvernd, en af rúmlega 250 vörutegundum eru yfir 70 í lausavigt eða umbúðalausar.

Myndir/OBÞ