Hafnfirðingar eiga sína eigin víkingasveit, félagið Rimmugýgi, sem fagnaði 20 ára afmæli í fyrra. Félagarnir eru um 200 og munu sjá um Víkingahátíðina í ár og verður hún á Víðistaðatúni í júní. Við kíktum í heimsókn í nýjar bækistöðvar Rimmugýgjar í Setbergshverfi, þar sem Húsið var áður. Samtökin eru þvert á trúarbrögð og þar er einelti bannað.

Glæsilegur hópurinn sem staddur var í bækistöðvunum þennan laugardag.

„Við byrjuðu á forvinnu með því að hóa okkur saman 1996 og stofnuðum svo Rimmugýgi á Þingvöllum 1997. Jörmundur allsherjargoði blessaði okkur við Öxarárfoss. Þá voru félagarnir átta, núna eru þeir um 200,“ segir Hafsteinn Kúld Pétursson, formaður. Félagarnir koma víðs vegar að en að stærstum hluta úr Hafnarfirði, en einnig frá nágrannasveitarfélögum og Selfossi. „Við höfum átt í góðu sambandi við önnur víkingafélög á landinu. Og félög hafa verið stofnuð út frá okkur, bæði á Grundarfirði og í Alaska. Það hefur gerst þegar menn hafa flutt héðan og ekki getað verið víkingafélagslausir.“

Heilmikil saumaaðstaða og sterkar saumavélar, enda er efnið sem unnið er með allt annað en þunnt silki.

Merki Rimmugýgjar.

Skjöldum safnað saman.

Undirbúningur allt árið

Félagar eru með skipulagðar samverustundir á laugardögum kl. 13 og segir Hafsteinn misfjölmennt þá, en Húsið sé aðallega hálfgerð félagsmiðstöð. „Hér fer fram undirbúningur fyrir Víkingahátíðina allt árið. Af nógu að taka, búa til fatnað, dúka og lagfæra ýmislegt. Fólki finnst það hafa góðan félagsskap hvert af öðru hér. Við erum erum hálfgerð fjölskylda, höfum alið börn hér upp og gert þau að mönnum og konum,“ segir Hafsteinn stoltur og bætir við að það besta við félagsskapinn sé hversu þétt hópurinn stendur saman og sameinast í þessu áhugamáli, þótt nálgunin sé úr ólíkum áttum. „Hér er fólk í handverki, bardagamenn og líka bæði. Einnig söngvarar og listafólk, bogfimifólk og annað.“

Hér er verið að mýkja leðurbelti svo að þægilegra sé að klæðast þeim.

Félagsmenn eru byrjaðir að hlaða á minningavegg.

Væntanlegir félagar finna okkur

Á Víkingahátíðinni er ýmislegt selt af því handverki sem félagar Rimmugýgjar búa til, en svo er líka aðkomufólk með sölutjöld og erlendir gestir, jafnvel fastagestir. „Þeir taka þátt í öllu þessu með okkur. Fyrir hátíðina núna koma gestir frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi og jafnvel Kanada,“ segir Hafsteinn. Á Víkingahátíðinni sé mikið spurt líka um hvernig hægt er að gerast félagi. „Þá bara upplýsum við fólk. Ef áhugi er fyrir bardaga er einfaldast að mæta á bardagaæfingu. Við tökum inn nýliða í þessum mánuði. Ef fólk er í handverki mætir það bara hingað á laugardegi kl. 13. Þau sem virkilega hafa áhuga, finna okkur, það er best þannig,“ segir Hafsteinn.

Það þarf mörg tjöld á víkingahátíð og hér er hluti þeirra. Þau eru bæði aðkeypt og heimasaumuð.

Virkilega snyrtilegar geymslur.

Talsvert í að hrella túrista

Sumarið hjá félaginu er oft undirlagt vegna hátíða erlendis og svo eru þeir talsvert beðnir um að hrella túrista. „Það var heilmikill hópur frá okkur á CCP ráðstefnunni í Hörpu og svo höfum við verið að leika í bíómyndum, þáttum og auglýsingum.“ Hafsteinn rifjar að lokum upp skondið atvik á víkingahátíð í Texas 2005, 50 manns af alls kyns þjóðerni. „Ég kom út af hóteli dálítið á undan öðrum til að fá mér sígarettu. Þá kemur lögreglubíll skransandi og út stígur lögreglumaður sem spurði með miklum Texas hreim hvurn andskotann ég væri að gera, þykjast vera að láta einhverja Pétur Pan drauma rætast, í búningi með sverð. Ég sagði bara: Það getur bara vel verið! Við það gengu fleiri furðu lostnir víkingar út af hótelinu og ég slapp við fangelsisvist,“ segir Hafsteinn hlæjandi.

Hér eru myndir frá Víkingahátíðinni í fyrra:
(allar myndir: Olga Björt)