Vel útfærð og heildstæð stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins liggur nú frammi. Hryggstykki hennar er sú einlæga ætlan frambjóðenda flokksins að halda áfram á braut ábyrgrar fjármálastjórnunar bæjarfélagsins. Tryggja það að bæjarsjóður, sem áður var í fjárhagslegri gjörgæslu opinbera aðila, lendi þar ekki aftur. Tryggja það að skattpeningum bæjarbúa sé frekar varið í uppbyggingu samfélagsins í stað greiðslu vaxta.

Stefnuskráin leggur áherslu á að haldið sé áfram þeirri þróun á bæjarfélaginu sem leidd hefur verið af Sjálfstæðisflokknum hin síðari ár, íbúum bæjarfélagsins til heilla. Hún snertir alla bæjarbúa á einn eða annan hátt svo sem barnafjölskyldur og eldri borgara. Hvet ég kjósendur til að kynna sér hana vel því sveitastjórnarkosningarnar sem haldnar verða 26. maí næstkomandi verða einar þær mikilvægustu fyrir Hafnfirðinga í langan tíma. Niðurstaða þeirra mun skipta sköpum fyrir framtíð bæjarins, hvort áfram mun ríkja festa og stöðugleiki eða við taka glundroði.

Hafa skal í huga það sem sagt var eitt sinn, „varist vinstri slysin“.

 

Magnús Ægir Magnússon

Höfundur er rekstrarhagfræðingur
og skipar sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði