Karel Ingvar Karelsson, fyrrverandi skipstjóri, hefur staðið að undirbúningi sjómannadagshátíðar Hafnfirðinga í nokkra áratugi. Því var löngu kominn tími á að heyra hans hlið á hátíðinni sem laðar að miklu fleiri en bæjarbúa. Karel er giftur Halldóru Júlíusdóttur, en þau tóku á móti viðurkenningu frá Sjómannadagsráði fyrir þremur árum. 

Við byrjuðum á því að spyrja Karel hvað hafi gefið honum mest við þetta óeigingjarna starf sem hann vil þó á engan hátt gera mikið úr. Og hvað hafi haldið honum við efnið. „Þrjóskan! (hlær stríðnislega) og metnaðurinn í að láta þetta ganga upp og vinna með góðu fólki. Allt sem kemst í fjölmiðla og hópar fólki saman og tekst vel, með góðu veðri og þátttöku bæjarbúa, verður að mikilvægum minningum. Ég er árlega spurður að því hvort það verði ekki örugglega sjómannadagur.“

Karel

Útgerðirnar buðu í siglingar

Karel hugsar til baka þegar útgerð var í bænum með fjölda togara og fiskiskipa. „Þá fengum við bara lánaða togara og við fórum með um 2000 manns í siglingu. Núna þarf Hafnarfjarðarbær að borga Eldingunni 600 þúsund fyrir að sigla með 1000 manns.“ Annars er greinilegt að Karel er stoltur af því hversu mikið Hafnfirðingar hafa haldið í eigin hefðir í tímans rás. „Ólíkt Reykjavík viljum við í Hafnarfirði hafa eiginkonur sjómanna við hlið þeirra þegar þeir eru heiðraðir. Grandi eyðilagði fjölmennu sjómannahófin sem voru á sínum tíma með því að vera með sér hátíð og þetta er orðin Hátíð hafsins í Reykjavík. Þannig verður það ekki hér.“

Bikar60 ára gamall kvennabikar

Meðal fastra liða á sjómannadeginum er kappróður, en það er liðin tíð að áhafnir keppi sín á milli. Núna taki hinir og þessir íþróttahópar og fulltrúar fyrirtækja þátt. Karel segir það skemmtilega þróun en einhvers misskilings hafi gætt með bikarverðlaun fyrir kappróðurinn. „Íshús Hafnarfjarðar gaf bikar fyrir sigurlið kvenna fyrir 60 árum og Vélsmiðja Hafnarfjarðar bikarinn sem sjómennirnir fengu þegar áhafnir kepptu og er í dag afhentur sigurliði karla. Við urðum varir við gagnrýnisraddir vegna stærðarmunar á bikurum kynjanna. Það er engin karlremba þar að baki, enda er kvennabikarinn sannarlega sögulegur.“ Þegar Eyjapeyjar hafi svo hætt að róa hafi þeir gefið stóran og veglegan silfurbikar sem sigurlið kvenna mun fá í ár. „Kvennasveitin réri hraðar en karlasveitin í fyrra og stóð sig virkilega vel,“ segir Karel.

HöfninÞakklátur mörgum

Að lokum segist Karel kampakátur með að Sjómanndagsráð hafi ákveðið að styrkja hátíðina um 750.000 núna. „Ég vil líka þakka öllum sem hafa stutt við þetta í gegnum árin, s.s. Lúðvík Geirsson, Björgunarsveit Hafnarfjarðar, Hafnarfjarðarhöfn, Trefjar, Úthafsskip, Sónar, Ásafl, Landsbankinn, Íslandsbanki, Vöruhótelið, Nonni Gull, Hvalur, Kambur og F.M.S. Einnig elsku Kristín heitin Gunnbjörnsdóttir, hin mikla atorkukona. Það var alveg sama hvað ég bað hana um að gera. Annað hvort reddaði hún aðstoð eða gerði það sjálf.“