VG í Hafnarfirði fordæma vinnubrögð meirihluta Bæjarráðs vegna ákvörðunar sem tekin var á aukafundi ráðsins þann 8. ágúst sl. um kaup á íþróttahúsum í Kaplakrika að upphæð 790 miljónir í þeim tilgangi að FH geti byggt knattspyrnuhús. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá VG í Hafnarfirði. 

„Jafnframt tökum við undir bókanir fulltrúa minnihlutans á fundinum um að ekki liggi fyrir verðmat á eignunum, ekki sé gert ráð fyrir upphæðinni í fjárhagsáætlun og að ekki hafi farið fram opin umræða meðal kjörinna fulltrúa né almennings um málið, og að horfið sé frá fyrri ákvörun um 100% eignarhald bæjarins á íþróttamannvirkjum.

Við leggjum áherslu á að við svo stóra ákvörðunartöku séu viðhöfð ábyrg og lýðræðisleg vinnubrögð með aðkomu allra kjörinna fulltrúa.

VG styður uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum en gerir kröfu um málefnalega og lýðræðislega umræðu um eignarhald og fjármögnun til að tryggja sátt um framkvæmdir.

Vinstri hreyfingin grænt framboð í Hafnarfirði“