Páll Steinar Guðnason, 13 ára nemandi í Áslandsskóla, leikur Fálkamanninn Bjössa í myndinni Víti í Vestmannaeyjum, sem frumsýnd var fyrir helgi. Um 1000 krakkar sóttu um í myndinni en framleiðendum leist fljótt vel á okkar mann og hann átti líka óvænta meðmælendur, enda kraftmikill og jákvæður strákur. Við heimsóttum hann og ræddum við hann um ferlið og tengingu Unicef við myndina.  

Gunni Helga, höfundur Vítis í Vestmannaeyjum, ásamt Páli Steinari.

„Frænka mín sem er í leiklist sá að auglýst var eftir krökkum í myndina og lét mig vita. Ég vissi ekki einu sinni af því. Hún sagði að ég væri pottþéttur í þetta. Bragi leikstjóri og þeir sögu að ég hefði verið næstum verið kominn með hlutverkið þegar ég kom í prufur,“ segir Páll Steinar sem endaði svo hópi þeirra sem fengu hlutverk í myndinni. Fjölskyldan komst að því seinna að kennari Páls Steinars og fleiri sem þekkja hann mæltu með honum og það hafði líklega einhver áhrif líka. „Ég æfi handbolta og fótbolta með FH og ég hef líka lesið allar bækurnar hans Gunna [Helgasonar]og finnst þær mjög góðar. Eftir að ég fór að leika í myndinni hef ég þó örugglega lesið Víti í Vestmannaeyjum svona 20 sinnum!“

Bragi leikstjóri kennir trikk.

Fálkarnir ásamt landsliðsmanninum Aroni Einari Gunnarssyni.

 

Hrefna hélt vel utan um hópinn sinn.

Góður og þéttur hópur

Páll Steinar var í skólanum þegar hringt var í foreldra hans og tilkynnt að hann hefði fengið hlutverk Bjössa. „Þau sögðu mér frá því þegar ég var kominn heim af æfingu. Ég sagði bekkjarfélögum mínum frá því í skólanum daginn eftir og svo hvissaðist þetta út meðal ættingja og vina sem urðu mjög stolt af mér,“ segir hann og brosir. Spurður um hvað sé minnistæðast úr ferlinu við gerð myndarinnar, segir Páll Steinar það bæði vera tökurnar sjálfar og ekki síst stundirnar sem hann átti með hópnum á milli þeirra. „Við urðum góður og þéttur hópur og erum vinir í dag. Hrefna Hallgrímsdóttir leikkona hélt svo vel utan um okkur allt ferlið. Við vorum tvær vikur að heiman við tökur í Vestmannaeyjum.“

Miðvörður og markvörður

Aðspurður um uppáhalds leikara í myndinni segist Páll Steinar hafa fylgst vel með Ilmi Kristjáns, Sigga Sigurjóns og Jóa G. Jóhanns. „Þau eru með svo mikla reynslu og það var gaman að fá að leika með þeim í myndinni. Þangað til í fyrra hélt ég að ég gæti ekkert endilega leikið og það yrðu bara valdir einhverjir sem eru góðir í því.“ Annars koma aðal fyrirmyndir Páls Steinars út íþróttaheiminum: David De Gea, Wayne Rooney og Hafnfirðingurinn Aron Pálmason. Fálkinn Bjössi er miðvörður í myndinni en sjálfur er Páll Steinar markvörður hjá 4. flokki yngri í FH. „Við Bjössi erum mjög líkir. Okkur þykir gott að borða, erum báðir stórir og sterkir.“

Fálkarnir ásamt liði FH.

„Ég ýtti þeim bara í burtu“

Á búningum Fálkanna í myndinni er merki Unicef áberandi, enda er tengingin við samtökin mjög skýr og í hávegum höfð. Í myndinni verður barn fyrir heimilisofbeldi af hálfu föður síns og þau sem þekkja söguna/myndina vita að vinir hans grípa inn í og segja frá. „Þetta hefur góð áhrif því það hjálpar að segja frá ofbeldi. Ég held dálítið utan um minn hóp eins og Bjössi í myndinni. Ég man eftir í eitt sinn sem ég hjálpaði einum í bekknum sem strákar voru að lemja. Ég ýtti þeim bara í burtu. Þeir eru hættir í skólanum núna og ekki að bögga hann mikið lengur,“ segir Páll Steinar.

 

Fyrir utan íþróttir og leiklist finnst Páli Steinari gaman að leika með vinum sínum og fara í ferðalög með fjölskyldunni. Hann á tvö yngri systkini, Þórð Júlíus 8 ára og Matthildi Svövu 5 ára. Og hann segist vera góður í stærðfræði og dönsku. Spurður um þetta tækifæri, að leika í bíómynd, segir Páll Steinar að lokum: „Ég verð aðeins þekktari en áður og kominn með öðruvísi athygli. Ég segi örugglega já við næsta hlutverki. Fyrir þau sem fá svona tækifæri vil ég segja: Verið þið sjálf og ófeimin. Maður veit aldrei hvaða leyndu hæfileika maður hefur.“

 

Forsíðumynd af Páli Steinari: Olga Björt

Aðrar myndir í einkaeigu og frá tökum á Víti í Vestmannaeyjum.