Nú liggur fyrir að átta framboð ætla að gefa kost á sér til bæjarstjórnarkosninga í Hafnarfirði. Það hlýtur að vera kjósendum umhugsunarefni hvaða hugmyndafræði og framtíðarsýn liggi fyrir mörgum þessara framboða, hvaða málefnagrunnur aðskilji þau hvert frá öðru og hvort kjósendur í Hafnarfirði treysti þeim fyrir stjórn bæjarins næstu fjögur árin. Það mun koma í ljós.

Við höfum sýnt að okkur er treystandi

Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði hefur látið verkin tala undanfarin fjögur ár í bæjarstjórn, allt frá því að sú farsæla ákvörðun var tekin að ráða í starf bæjarstjóra einstakling sem hafði þá faglegu færni sem þurfti til að taka til hendinni í fjármálum og rekstri bæjarins þegar nýr meirihluti tók við og fylgja eftir að stefnumál okkar yrðu framkvæmd. Núna, þegar lok kjörtímabilsins nálgast, geta bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins staðið við að hafa komið þeim málum í höfn sem lagt var upp með fyrir síðustu kosningar og reyndar fjölmörgum fleirum til viðbótar.

Eingöngu atkvæði greidd Sjálfstæðisflokknum

Það er aðeins Sjálfstæðisflokkurinn sem býður þá reynslu sem fengin er af stefnumálum okkar og árangri á liðnu kjörtímabili og frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins búa að því trausti sem þarf til að halda þeirri vinnu okkar áfram.

Framboðin eru mörg en það verða eingöngu atkvæði greidd Sjálfstæðisflokknum sem geta tryggt að við höldum áfram okkar verkum fyrir Hafnarfjörð.

Kristinn Andersen

Höfundur er verkfræðingur og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði