Píratar spyrja ekki um stétt eða stöðu. Píratar eru ungir og aldnir, konur karlar og hinsegin. Allt fólk skiptir máli. Þetta er ekki tilviljun heldur grunnstef flokksins. „Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá,” segir í grunnstefnu Pírata.

Hinn venjulegi borgari, þú eða ég, þarf ekki að annað en að eiga ósköp venjulegan dag til að átta sig á því hversu margt er hægt að bæta í samfélaginu okkar. Fyrir suma eru það ónýtar almenningssamgöngur sem verður að koma í lag sem fyrst. Öðrum liggur mest á að upplýsingar um stjórnsýsluna séu aðgengilegar á einfaldan hátt, því aðgengi að upplýsingum er valdeflandi fyrir almenning. Þá er algjörlega ólíðandi að það gerist reglulega að ferðaþjónusta fatlaðra keyri fatlað fólk á kolrangan stað og skilji fólkið þar eftir einsamalt. Við sem samfélag getum sameinast um það.

Samfélagið er í stöðugri þróun en margir upplifa að það sé aðeins einhver valdaelíta sem taki allar ákvarðanirnar – ákvarðanirnar sem varða daglegt líf mitt og þitt. Píratar vilja snúa þessu á hvolf. Við Píratar viljum að þú ráðir.

Það kallast þátttökulýðræði þegar almennir borgarar taka virkan þátt í ákvarðanatöku. Verkefnin Betri Reykjavík og Okkar Kópavogur eru dæmi um vel heppnaða leið til hjálpa íbúum að taka virkan þátt í mótun samfélagsins. Tilvalið er að taka upp viðlíka vinnulag hér í Hafnarfirði. Við Píratar viljum  hlusta á þig.

 

“Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.”

6.1. gr í grunnstefnu Pírata

 

Hildur Björg Vilhjálmsdóttir

Skipar 3. sæti Pírata í Hafnarfirði