Jóga og núvitundarheilun hjálpuðu Friederike Berger að ná þeirri hugarró sem hún hafði reynt að ná með ýmsum leiðum eftir áföll sem náðu langt aftur til æskuára. Fram að því hafði hún menntað sig sem kennari, leiðsögumaður og Rope yoga kennari. Hún hefur nú látið stóran draum rætast og opnað jógastöðina Hugarró í Garðabæ, en hún og eiginmaður hennar, Hafnfirðingurinn Sverrir Þór Sævarsson, búa í Setberginu ásamt tveimur dætrum, Mariönnu Ósk og Elisabeth Rós.

„Það hefur alltaf verið þema hjá mér frá því ég var lítil stelpa, að hjálpa eða bjarga öðrum. Ég vildi verða slökkviliðsmaður og á þeim tíma þar sem ég bjó í Þýskalandi máttu bara karlar starfa við það. Ég fór þá bara að hjálpa dýrum á dýraheimili og lærði til leiðsögumanns og kennara. Rauði þráðurinn var alltaf að leiðbeina fólki til að líða vel á einhvern hátt. Pabbi er prestur og mamma var hjúkrunarfræðingur og þetta var því dálítið í blóðinu og uppeldinu,“ segir Friederike, stolt af uppruna sínum. Hún kom fyrst til Íslands árið 1999 til að starfa sem aupair og féll fyrir landi og þjóð. Hún fór svo aftur til Þýskalands í eitt ár en kom svo aftur og kynntist Sverri árið 2005.

Dregin í örlagaríkt partý

Þá var Friederike í námi og starfaði einnig á hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Eitt kvöldið, eftir að hún hafði klárað kvöldvakt, dró vinkona hennar hana með sér í örlagaríkt partý. „Mér fannst ég ekkert eiga erindi þangað. Maðurinn hennar var í Sinfóníuhljómsveit Íslands sem var með þetta partý og Sverrir var líka dreginn á sama stað með vini sínum úr hljómsveitinni. Við sátum svo bæði eins og asnar og höfðum engan til að tala við. Ég ákvað bara að kynna mig og spjalla við hann.“ Seinna fóru þau í bíó og urðu vinir en það þróaðist síðar út í að þau urðu par. „Sverrir Þór og foreldrar hans voru mjög hrifin af Þýskalandi áður en ég kynntist þeim. Það var því mjög heppileg og skemmtileg tilviljun.“ segir Friederike og hlær.

Fjölskyldan saman. Mynd aðsend. 

Að nýta alla reynslu til góðs

Hún telur að allir hafi einhvern tilgang í lífinu, eitthvað hlutverk. „Ég varð ung að árum fyrir kynferðisofbeldi og áfallastreituröskun af þeim völdum kom fram löngu seinna. Afturheilinn lokar á svona og það var ekki fyrr en ég var orðin þrítug sem ég leitaði mér hjálpar, fyrst hjá Stígamótum og svo sálfræðingi,“ segir Friederike og bætir við að sú sjálfsvinna leiddi hana að jóga því hún var alltaf að reyna að hugarróna sem vantaði. „Ég var þunglynd og leið illa og í úrvinnslunni löngu síðar spurði ég sjálfa mig að því hvort ég ætlaði að halda áfram að hanga þar eða fá hjálp út úr því. Ég lít á það sem tilgang minn í lífinu að miðla til annarra hugarró sem svo hjálpar fólki að komast af stað, sama hvað það hefur gengið í gegnum. Við höfum öll einhverja lífsreynslu og við þurfum bara að spyrja okkur hvað við ætlum að gera við hana. Nýta til góðs eða vera á dimmum stað?“

Eitt af þeim verkfærum sem Friederike hefur lært að nota. Mynd aðsend. 

Leitaði sér þekkingar á ýmsan hátt

Einlæg ósk Friederike er að miðla þessari þekkingu áfram, vonandi öðrum til hjálpar. „Ég kynntist Kundalini jóga á meðgöngu árið 2006 og árið 2013 fór ég svo í kennaranámið og útskrifaðist 2014. Árið 2015 hóf ég nám í Sat nam Rasayan núvitundarheilun og lauk stigi 1 árið 2016. Í framhaldi af því fór ég í nám á stigi 2 og klára það núna í vor.“ Annars starfar hún sem sérkennari í grunnskóla, er leiðsögumaður og Rope yoga kennari. Í kundalini jóga fannst Friedrike hún loksins fá þá tilfinningu að vera komin heim. „Þetta er andlegt jóga og heildrænt. Fljótasta aðferðin til að sameina huga og sál. Þá gerum við öndunaræfingar og líkamsæfingar með slökun og hugleiðslu. Og ég nota líka heilun. Það hentar mér mjög vel.“

Aðstaðan þar sem heilunin fer fram. Mynd OBÞ.

„Orðinn helvíti góður í bakinu!“

Friederike segir afar notalegt að vera komin á þennan stað í lífinu og á þennan stað í Garðabæ með fyrstu jógastöðina sína. Margir séu skeptískir á virkni heilunar en hún hvetur þau sem vilja að láta á reyna. „Öndunin er svo mikilvæg. Bara það að leiða hugann að önduninni niður í kviðinn en ekki út í brjóstkassann. Annars heftum við orkuflæðið og verðum máttlausari og stressaðri. Ég þekki líka vel kvíða og þá ofandar maður oft. Hlátur hjálpar líka mikið. Þetta er átakalaust og það er svo mjúkt fallegt og skemmir ekkert. Einn maður sem kom til mín algjörlega án væntinga sagði eftir á að hann væri orðin bara helvíti góður í bakinu! Samt er miklu algengara að konur komi. Þær eru duglegri við að leita alls kyns leiða til vellíðunar. Og mér finnst fólki líða vel hér.“

Aðspurð segir Friedrike að mest gefandi við það að leiðbeina jóga sé að finna fyrir djúpu þakklæti jafnvel langt á eftir. „Ég verð svo snortin í hvert sinn. Ég var búin að leita að góðum stað fyrir jóastöðina mína í þrjú ár og svo losnuðu hindranir hjá mér. Þegar ég fékk lyklana í hendurnar þá vissi ég að ég væri komin á réttan stað.“

Næstu námskeiđ hjá Friedrike byrja 31. janúar (hugleiđslunámskeið) og 5. febrúar (Kundalini jóga). Hugarró má finna bæði á Facebook og á síðunni www.hugarro.is.

Forsíðumynd: OBÞ.