Enn á ný ganga Íslendingar til kosninga laugardaginn 26. maí nk. Nú vegna sveitarstjórnarkosninga. Sennilega eru margir búnir að fá nóg af kosningamaraþoni undanfarin ár vegna endurtekinna alþingiskosninga en hafa verður í huga að talsverður munur er á alþingiskosningum og sveitarstjórnarkosningum.

Af hverju eiga landsmenn að mæta á kjörstað 26. maí? Sveitarstjórnarkosningar snúast um að kjósa fulltrúa bæjarins til að sjá um og framkvæma málefni sem snerta okkur bæjarbúa hvað mest. Því skiptir máli að bæjarbúar mæti á kjörstað til að hafa áhrif og tryggja að sveitarfélagið starfi í þágu bæjarbúa.

Júlíus Andri Þórðarson heiti ég og býð mig fram fyrir VG í Hafnarfirði fyrir komandi kosningar. Á kjörtímabilinu sem er að ljúka hef ég verið fulltrúi VG í skipulags- og byggingaráði, verið varamaður í fjölskylduráði og unnið í nokkrum starfshópum.

Undanfarið kjörtímabil hefur einkenns af skringilegum og ógegnsæum vinnubrögðum af hálfu meirihlutans. Líklega var aldrei alvöru meirihluti í Hafnarfirði og bæjarbúum er það ljóst nú korteri í kosningar. Mig langar að vinna í umboði bæjarbúa til þess að breyta þessum vinnubrögðum og vegna þess að VG í Hafnarfirði er treystandi til þess að vinna í þágu bæjarbúa og með hag bæjarbúa að leiðarljósi. Bæjarbúar eiga það skilið og eiga rétt á fólki sem er traustins vert og vinnur vinnuna sína af vandvirkni og heiðarleika.

 

Júlíus Andri Þórðarson

Laganemi og skipar 4. sæti lista VG