Ung hafnfirsk kona, Aníta Ösp Ingólfsdóttir, er langsyngst og eina konan sem var með hlutverk í auglýsingu Dodge Ram sem sýnd var þegar einn stærsti íþróttaviðburður ársins, Ofurskálin (Super Bowl), var sýndur í beinni útsendingu víða um heim. DV greindi frá auglýsingunni og nefndi nöfn nokkurra af karlkyns leikurum sem voru með hlutverk. Við ákváðum að gera betur og kynna okkar konu til leiks. 

New England Patriots og Philadelphia Eagles öttu kappi í Super Bowl eða Ofurskálinni. Aníta Ösp var meðal fjölda íslenskra víkinga í auglýsingunni þar sem þeir m.a. aka um íslenska náttúru og syngja um leið Queen smellinn We Will Rock You. Við höfðum samband við hana og spurðum hvernig þetta komt til.

„Ég er með samning hjá módel skrifstofunni Eskimo og þau báðu mig um að koma í hlutverk fyrir þetta og svo viku seinna var ég bara komin til Bandaríkjana í tökur,“ segir Aníta Ösp og hlær og bætir við að fleiri Hafnfirðingar hafi verið í auglýsingunni því framleiðendur leituðu m.a. í víkingabæinn og Víkingafélagið sem staðsett er í Hafnarfirði. Hún starfar hjá 66°N og skrifstofu Eskimo models og er fædd 1997. „Það var svakalega vel komið fram við mig og mér leið svolítið eins og ég væri litla systirin. Þeir voru allir að passa upp á mig og hjálpa mér þar sem þetta var fyrsta skiptið sem ég var að leika eitthvað en þeir höfðu flestir ef ekki allir gert þetta áður. Það var allt mjög skemmtilegt í kringum þetta og virkilega skemmtilegt að vera eina konan.“ Spurð um hvort fleiri svipuð verkefni séu framundan segir Aníta Ösp ekkert stórt í pípunum eins og er, en það geti verið fljótt að breytast.

Forsíðumynd af Anítu Ösp: Hulda Margrét Sigurðardóttir. 

Hér er svo auglýsingin: